Virðisaukaskattur af barnafatnaði

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 16:16:01 (1247)

2002-11-07 16:16:01# 128. lþ. 25.11 fundur 311. mál: #A virðisaukaskattur af barnafatnaði# þál., Flm. PM
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Flm. (Páll Magnússon):

Herra forseti. Ég þakka ágætisviðtökur við þessa þáltill. mína. Fyrst varðandi ræðu hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur þá ítreka ég það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Þá dró ég það einmitt fram að þessi hópur, barnafjölskyldur í landinu, hefði orðið harkalega fyrir barðinu á jaðaráhrifum skattkerfisins og þó að þessi tillaga hafi í sjálfu sér ekkert með jaðaráhrifin að gera þá kemur hún öllum til góða óháð tekjum. Þetta er einföld aðgerð sem skilar sér beint til barnafólks.

Ég minntist líka á það í fyrri ræðu minni að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað um barnabæturnar og þar er rætt um að taka upp barnakort eða eitthvað annað sambærilegt. Ég minni á að ég hef lagt hér í þinginu fram fyrirspurn til fjmrh. um barnakortin og spurt eftir því hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að taka upp barnakort fyrir börn eldri en sjö ára. Mikilvægt er að það komi fram vegna þessarar umræðu að í upphafi kjörtímabilsins var lögum um barnabætur breytt þannig að teknar voru upp ótekjutengdar barnabætur fyrir öll börn yngri en sjö ára og nema þær rúmlega 30.000 kr. á ári. Það kostar ríkissjóð um 2 milljarða á ári. Þetta var gert í samvinnu við verkalýðshreyfingu og á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999. Því má líta svo á að barnakort, sem við framsóknarmenn lögðum áherslu á í kosningabaráttunni síðustu, fyrir öll börn upp á 30.000 kr. á ári, séu komin í gagnið fyrir öll börn yngri en sjö ára. En eins og ég sagði í fyrri ræðu minni: Betur má ef duga skal. Ég vona að barnakort verði tekin upp fyrir öll börn.

Ég tek undir það að barnabætur taka að skerðast við óvenju lágar tekjur og þar erum við auðvitað að ræða um þessi jaðaráhrif skattkerfisins. Ég hef einnig lagt fram fyrirspurn um það efni til fjmrh. Annars vegar lagði ég fram fjórar spurningar um jaðaráhrif skattkerfis, þ.e. hvort þau markmið ríkisstjórnarinnar sem skilgreind voru í stefnuyfirlýsingu hennar hafi náðst og einnig um þróun jaðaráhrifa á kjörtímabilinu og hlutfall tekjuskatts, þ.e. hlutfallslega skiptingu tekjuskatts einstaklinga eftir aldurshópum.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem hér hafa talað og vona að tillagan hljóti framgang á hinu háa Alþingi.