Vitamál

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:05:06 (1248)

2002-11-11 15:05:06# 128. lþ. 26.6 fundur 258. mál: #A vitamál# (vitagjald, sæstrengir) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999. Frumvarp þetta er samið í samgrn. í samráði við Siglingastofnun Íslands. Tilgangur þess er að kveða á um hækkun vitagjalds í samræmi við verðlagsbreytingar frá því upphæð gjaldsins var sett í lög í desember 1999. Þá var ákveðið að vitagjald skyldi vera 68,60 kr. af hverju bruttótonni skips og lágmarksgjald 3.000 kr. Með frv. er lagt til að vitagjaldið verði 78,20 kr. á hvert bruttótonn og að lágmarksgjald hækki í 3.500 kr. Gert hefur verið ráð fyrir þessari hækkun í frv. til fjárlaga fyrir árið 2003.

Vitagjaldið er notað til þess að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum öryggisleiðbeiningum í siglingum við Íslandsstrendur og á fiskimiðum í kringum landið.

Siglingastofnun fer með framkvæmd vitamála hér á landi. Verkefnin sem falla undir þennan málaflokk hafa orðið æ fjölbreyttari með auknum tækniframförum. Auk hefðbundins rekstrar vita má nefna dæmi um rekstur fljótandi leiðarmerkja, sendingar radíómerkja til staðarákvörðunar, upplýsingar um veður- og sjólag og útgáfu sjókorta.

Í dag eru ekki skýr ákvæði í lögum um að leitað sé samþykkis eða umsagnar Siglingastofnunar áður en mannvirki eru lögð í sjó eða aðrir fljótandi hlutir settir upp sem ógnað geta öryggi siglinga. Nauðsynlegt er að bæta hér úr svo að Siglingastofnun geti sinnt þeirri skyldu sinni að öll mannvirki sem staðsett eru á mikilvægum siglingaleiðum séu merkt strax inn á sjókort og nauðsynlegar upplýsingar séu aðgengilegar fyrir sjófarendur.

Markmiðið með 2. gr. frv. er að bæta úr þessu. Í 1. mgr. 2. gr. frv. er lagt til að aflað skuli samþykkis Siglingastofnunar áður en sæstrengir og neðansjávarleiðslur eru lagðar í sjó en í 2. mgr. er kveðið á um að leita þurfi umsagnar stofnunarinnar um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, svo sem fiskeldiskvía, mælitækja á sjó og veðurdufla. Markmiðið er eins og að framan segir að sjá til þess að á sjókortum séu ævinlega merktar allar hindranir á viðurkenndum siglingaleiðum til öryggis fyrir sæfarendur.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.