Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:11:19 (1250)

2002-11-11 15:11:19# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002. Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um breytingar á einkaréttarmörkum gildandi póstlaga með hliðsjón af nýrri tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/39/EC frá því í júní 2002 sem breytir tilskipun nr. 97/67/EC varðandi frekari opnun póstmarkaðar í Evrópu fyrir samkeppni.

Í frv. til laga sem samþykkt voru á síðasta vorþingi, laga nr. 19/2002 eins og fyrr var getið, og lagt var fyrir Alþingi í október 2001 var gert ráð fyrir að einkaréttur ríkisins héldist að mestu leyti óbreyttur frá þágildandi lögum. Í athugasemdum við frv. var tekið fram að óráðið væri hvaða breytingar Evrópusambandið mundi gera á ákvæðum tilskipunarinnar 97/67/EC um póstsendingar í einkarekstri og að umræða um einkaréttinn stæði enn yfir.

Í nefndaráliti meiri hluta samgn. um frv., þskj. 805, segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum á einkarétti ríkisins frá því sem nú er. Ekki er enn ljóst hver þróunin verður í Evrópu hvað þetta varðar og má telja eðlilegt að beðið sé eftir því að línur skýrist á þeim vettvangi áður en næstu skref eru stigin hér á landi í átt til frekari takmörkunar einkaréttarins. Þess má geta að þyngdarmörk bréfa sem falla innan einkaréttarins hér á landi eru nokkuð lægri en núgildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins segir til um.`` --- Þ.e. 250 g hér á landi á móti 350 g ESB. --- ,,Meiri hlutinn leggur áherslu á að fylgst verði vel með þróun mála í Evrópu þannig að Ísland verði ávallt í fararbroddi í átt til aukins frelsis á þessu sviði.``

Eins og áður sagði gaf Evrópusambandið út umrædda tilskipun í júní sl. Helsta breytingin lýtur að mörkum einkaréttar. Þar segir, að aðildarríkin geti veitt rekstrarleyfishöfum með alþjónustuskyldur áfram einkarétt til þess að tryggja þá þjónustu að því marki sem talið er nauðsynlegt. Póstþjónusta innan einkaréttar skal takmörkuð við móttöku eða söfnun, flokkun, flutning og skil á póstsendingum innan lands og póstsendingum sem berast til landsins hvort sem um er að ræða hraðsendingar eða ekki innan eftirfarandi þyngdar og verðtakmarkana. Þyngdarmörkin skulu vera 100 g frá og með 1. janúar 2003 og 50 g frá og með 1. janúar 2006. Þessi þyngdarmörk gilda ekki ef póstsendingar bera burðargjald sem er frá 1. janúar 2003 jafnt eða hærra en þrisvar sinnum burðargjald bréfasendinga í fyrsta (lægsta) þyngdarflokki hraðasta flokks innan lands og frá 1. janúar 2006 ef burðargjaldið er jafnt eða hærra en 2,5 sinnum þetta gjald.

Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að gildistíma einkaréttar ljúki í lok ársins 2008 nema ESB taki ákvörðun um annað fyrir þann tíma.

[15:15]

Hér á landi eru þyngdarmörkin samkvæmt gildandi lögum 250 g og verðmörkin fimm sinnum lægsta burðargjald. Nú er þetta burðargjald 45 kr. sem segir að bréf sem er innan 250 g markanna en ber burðargjald sem er jafnt eða hærra en 225 kr. er utan einkaréttar.

Frá næstu áramótum, ef frv. þetta verður að lögum og gjaldskrá helst óbreytt, er bréf sem er innan 100 g markanna en ber burðargjald sem jafnframt er hærra en 135 kr. utan einkaréttar. Augljóst er af þessu að í flestum tilfellum falla hraðsendingar utan einkaréttar vegna þess að greitt er fyrir þær aukagjald. Um áhrif þessarar breytingar á póstþjónustuna hér á landi er það að segja að samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hf. eru 94% póstlagðra bréfa 100 g eða léttari og 86% bréfa eru 50 g eða léttari. Þess má einnig geta að 77% bréfa eru 20 g eða léttari.

Jafnframt er í hinni nýju tilskipun skerpt á nokkrum atriðum sem eru til bóta fyrir viðskiptavini póstrekenda. Þeim atriðum eru gerð skil í frv. Í fyrsta lagi eru tekin inn skýrari ákvæði um sérstakar gjaldskrár rekstrarleyfishafa vegna þjónustu þeirra við þá sem afhenda mikið magn póstsendinga í einu og taka slíkar gjaldskrár fyrst og fremst mið af þörfum atvinnufyrirtækja og annarra stórnotenda eða fyrirtækja sem safna saman póstsendingum mismunandi viðskiptavina og afhenda rekstrarleyfishafa. Slík sérgjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem ekki hefur þurft að leggja út í samanborið við venjulega póstþjónustu.

Til þess að gætt sé jafnræðis verður slík gjaldskrá einnig að gilda fyrir aðra notendur sem uppfylla sömu skilyrði um afhendingu í miklu magni. Eins og kemur fram í athugasemdum við frv. hefur slíkum endursölufyrirtækjum verið komið á fót víða erlendis. Þetta eru fyrirtæki sem taka að sér að koma bréfum notenda á afhendingarstað rekstrarleyfishafa og njóta þess vegna afsláttar af venjulegu gjaldskránni. Sömuleiðis hefur það færst í aukana að stórfyrirtæki afhendi póst beint í póststöðvar og noti ekki venjulega afgreiðslustaði. Hið síðarnefnda á sér nú þegar stað hér á landi og líklegt er að endursölufyrirtæki skjóti áður en langt um líður upp kollinum hérlendis.

Í öðru lagi eru tekin inn ákvæði þar sem rekstrarleyfishöfum er bannað að greiða niður þjónustugjöld í alþjónustu utan einkaréttar með tekjum af einkaréttarþjónustu, nema sýnt hafi verið fram á að slíkt sé beinlínis nauðsynlegt til að verða við sérstökum alþjónustukvöðum sem hvíla á rekstrarleyfishafa.

Í þriðja lagi eru sett inn ákvæði sem skyldar rekstrarleyfishafa að gefa út skýrar reglur um meðferð kvartana frá notendum og skal Póst- og fjarskiptastofnun sjá til þess að reglurnar gefi kost á skjótri og sanngjarnri lausn deilumála með endurgreiðslum og/eða skaðabótum þegar þær eiga rétt á sér.

Varðandi þá grein gildandi laga sem fjallar um einkarétt ríkisins, 7. gr., er til viðbótar við það sem að framan greinir um mörk einkaréttar, lagt til í fyrsta lagi að felld verði niður orðin ,,án tillits til innihalds`` og í öðru lagi er lagt til að fellt verði niður ákvæði 2. tölul. þeirrar greinar en samkvæmt ákvæðinu hefur einkaréttur verið látinn ná til ábyrgðarbréfa sem notuð eru til að koma til viðtakenda birtingu á stefnum sem og opinberum tilkynningum stjórnvalda. Bent hefur verið réttilega á að vandkvæði geta verið á því að greina bréf m.a. ábyrgðarbréf frá öðrum bréfum eftir innihaldi þeirra.

Herra forseti. Allt miðar þetta sem hér er lagt til að því marki að bæta þjónustu við notendur og viðskiptavini póstþjónustunnar og er þess vegna mikilvægt.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.