Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:28:23 (1252)

2002-11-11 15:28:23# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki frá því að ákveðins misskilnings hafi gætt í máli hv. þm. Það er hárrétt hjá þingmanninum að þær breytingar sem eru að verða á Póstinum eru á margan hátt mjög sársaukafullar eins og ýmsar breytingar sem verða á stofnunum. Breytingar hafa orðið á Símanum, það hafa orðið breytingar á póstþjónustu og öðru slíku og talað er um að þjónusta pósthúsanna hafi minnkað mjög mikið. Starfsemin við það að skilja að póstinn og símann, talað er um að u.þ.b. 60% af starfsemi pósthúsanna hefði verið fólgin í því að þjónusta símann og nú er í raun og veru ekki eftir nema 40% af því starfi sem áður var í þeim stofnunum. Vissulega eru þessar breytingar afar sársaukafullar. En þær eru engu að síður staðreynd en það er ekki alveg hárrétt þegar verið er að tala um að loka stofnunum vegna þess að oft og tíðum er verið að tala um að færa þjónustuna inn í aðrar stofnanir úti á landsbyggðinni. Það hefur gerst vítt og breitt um landið og sú þjónusta hefur á margan hátt gefist vel.

Á sama tíma er líka verið að auka þjónustu, t.d. er verið að auka hana vítt og breitt um landið. Verið er að dreifa pósti í dreifbýli á mörgum stöðum fimm daga vikunnar þar sem áður var þriggja daga póstþjónusta. Á sama hátt er verið að bera út ábyrgðarbréf, böggla og þess háttar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar á landinu. Í raun og veru er verið að gerbreyta þessari þjónustu. Ég tek undir það að tæknibreytingar og breytingar í samfélaginu eru oft sársaukafullar gagnvart því góða fólki sem hefur unnið í þessum stofnunum. Sums staðar hefur fólkið færst í aðrar stofnanir með þjónustunni þar sem er t.d. verið að færa póstþjónustu yfir í banka og þess háttar en það er kannski ekki alveg hárrétt að segja að menn séu að loka og klippa á alla þjónustu.