Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:30:32 (1253)

2002-11-11 15:30:32# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nóg með að þetta séu sársaukafullar breytingar. Að sönnu eru þær sársaukafullar fyrir fólkið sem er að missa störf sín. Ég held því fram að þetta sé einnig mjög vanhugsað. Við erum ekki fyrst og fremst að tala um tæknilegar breytingar eins og skilja mátti á hv. þm. Þetta eru pólitískar breytingar. Það er pólitík að ákveða að markaðsvæða samfélagsþjónustuna. Það er pólitík en hefur ekkert með tækni að gera.

Það er rétt að því verður ekki haldið fram að lokað sé fyrir alla þjónustu þótt pósthúsi sé lokað. Um það deilir náttúrlega enginn en þjónustan er flutt yfir í aðrar stofnanir. Hvaða stofnanir skyldu það vera? Það eru verslanir, bensínstöðvar og bankar. Bankar --- hvað er að gerast þar? Er það kannski af tæknilegum ástæðum að verið er að selja hlut þjóðarinnar í Landsbanka og Búnaðarbanka? Nei, það eru pólitískar ákvarðanir. Sú hætta vofir nú yfir, ekki síst í fámennum byggðarlögum, að sömu útibúum og hafa tekið að sér póstþjónustu verði núna lokað vegna pólitískra ákvarðana ríkisstjórnarinnar, Sjálfstfl. og Framsfl. Þetta hefur ekkert með tækni að gera. Þetta hefur með pólitík að gera og þeir sem eru ábyrgir fyrir henni eiga að axla hana.