Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:48:59 (1257)

2002-11-11 15:48:59# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég er ósammála því sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni varðandi það að hér væri ekki neitt stórmál á ferðinni. Hér er gríðarlega stórt mál á ferðinni. Menn verða að svara því hvort þeir ætla sigla hraðbyri áfram og smyrja bara til að komast hjá versta ískrinu í hjólunum á leið sinni til einkavæðingar á póstþjónustunni í landinu. Málið snýst bara um þetta. Menn verða að átta sig á á hvaða leið þeir eru.

Það sem hefur gerst nú þegar með hlutafélagavæðingunni er, eins og allir landsmenn vita, að hækkanir á þjónustugjöldum hafa verið gífurlegar og það hefur sérstaklega komið niður, t.d. á landsmálablöðum sem nú orðið er varla hægt að gefa út. Póstburðargjöldin hafa hækkað svo mikið á þeim. Frjáls félagasamtök kvarta mjög undan því hvað tilkostnaðurinn hefur aukist við dreifingu og það er einmitt landsbyggðin sem verður fyrir barðinu á því.

Til hins háa Alþingis berast nú umsóknir um styrki sem nema milljónum til félagasamtaka sem þjóna landinu öllu en treysta sér ekki lengur, miðað við núverandi ástand og þær breytingar sem þegar er búið að gera, til þess að þjóna landinu. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að ræða þessi mál og hvert við ætlum að stefna til frambúðar. Ef stjórnarmeirihlutinn og kannski fleiri hér í þinginu stefna í einkavædda póstþjónustu innan örfárra ára verða þessir sömu, hinir háu alþingismenn, að hafa tillögur um hvernig eigi að þjóna landinu á grunni þeirrar breytingar Það er hins vegar ekki gert. Þess vegna eru að koma upp svona hliðarverkanir, m.a. að félagasamtök sem bráðnauðsynlegt er að þjóni öllu landinu eru hætt að hafa efni á að notfæra sér þá þjónustu sem í boði er til þess að senda dreifibréf sín og upplýsingar út um land allt.

Þetta er áhyggjuefni, virðulegi forseti. Við gerum kröfu til þess að fá á hinu háa Alþingi lýsingu á því hvernig menn sjá fyrir sér að veita nauðsynlega þjónustu í því breytta umhverfi sem augljóslega er verið að boða að skapað verði hægt og rólega. Það er búið að hlutafélagavæða póstþjónustuna. Eigi að einkavæða hana innan örfárra ára gilda lögmál markaðarins og þá gerist nákvæmlega það sem gerst hefur í öllum öðrum löndum þar sem þessi leið hefur verið farin. Menn þjóna bestu bitunum, þéttbýli landsins með alls konar smáfyrirtækjum þar sem póstur er borinn út o.s.frv. Síðan verður að þjóna dreifbýlinu og það kemur þá niður á skattgreiðendum í öðru formi. Það er ekki til of mikils mælst, virðulegi forseti, að þeir sem aðhyllast þessar breytingar setji fram hugmyndir hvernig þeir vilji leysa þau vandamál sem upp koma. Þau eru svo sannarlega stór.

Ég veit ekki hvort Íslendingar átta sig á því hversu þýðingarmikill hlekkur póstþjónustan er fyrir allt landið, t.d. fyrir aukna ferðamannaþjónustu. Það er algert lykilatriði, líkt og með símasamband, að það sé góð póstþjónusta alls staðar. Við erum að reyna að stefna að því í ferðamannaþjónustunni að meiri vigt verði lögð á að fá ferðamenn í byggðirnar, niður á ströndina og minni áhersla verði lögð á hálendið. Þessi þjónusta verður að vera þar alls staðar. Þess vegna er fækkun útibúa og minni þjónusta blóðtaka fyrir hvert byggðarlag sem fyrir verður.

Ég veit að menn hafa haft tilburði til að setja þessa þjónustu inn í aðrar þjónustustofnanir, jafnvel verslanir. Það getur vel verið nothæf leið. En það er bara millibilsástand miðað við þá vegferð sem lagt er upp með hér. Við höfum verið á þeirri vegferð á undanförnum mánuðum og missirum hvað varðar breytingar á þessari þjónustu. Það er ekki gott mál. Að mínu mati og okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er póstþjónusta grunnþjónusta sem á að vera aðgengileg öllum hvar sem þeir búa í landinu á sömu kjörum. Svo einfalt er það frá okkar bæjardyrum séð.

Margir eru að hrökkva upp við að hin leiðin er kannski, þegar upp er staðið, afturhvarf til fortíðar. Ég tek bara sem dæmi litlu símafyrirtækin sem hafa rutt sér til rúms, t.d. í stórborgum Evrópu. Það er nú talið stórvandamál, t.d. í London, að smáfyrirtæki í þjónustu þar í borginni kaupa þjónustu af símafyrirtækjum sem hafa enga samninga út í heim. Fyrirkomulag með svokallaðri einkavæðingu eða einkarekstri á þessari þjónustu hefur brotið á bak aftur þá samtengingu sem heimurinn var þó kominn í. Heilu löndin eru meira að segja komin í vandræði með þetta, lönd og sjálfstjórnarsvæði sem hafa gert samning við einkarekin fyrirtæki sem engan veginn hafa verið í stakk búin til að veita þá þjónustu sem þau óska eftir. Þessi fyrirtæki hafa ekki þá alþjóðlegu samtengingu sem er alger grundvallarnauðsyn í nútímasamfélagi.

Virðulegi forseti. Við erum að tala hér um gríðarlega mikið og stórt mál. Ég geri mér grein fyrir því að þetta frv. er til 1. umr. og á eftir að fá mikla umfjöllun í nefnd. Ég krefst þess að umfjöllunin verði á þeim nótum að hún leiði í ljós hvert menn stefna. Ef menn átta sig á því og viðurkenna hvert þeir stefna skulu hinir sömu leggja fram áætlun um hvernig í ósköpunum þeir ætli að veita nauðsynlega þjónustu á hinum nýja grunni sem þeir eru að búa til. Það kemur sannarlega fram krafa um það. Hækkanirnar á þjónustunni núna, m.a. til landsmálablaða og félagasamtaka, hefur einfaldlega leitt af sér að frjáls félagasamtök og jafnvel landsmálablöð þurfa að kría út styrki til að standa straum af þessum kostnaði. Það stendur upp úr hverjum manni. Það stendur upp úr hverjum forsvarsmanni félagasamtaka.

Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland vegna þess hversu strjálbýlt landið er, sennilega strjálbýlasta land í Evrópu þegar á heildina er litið. Hér er gríðarlegt landflæmi og gilda allt önnur lögmál hvað varðar grunnþjónustu hér en víðast hvar annars staðar.

Við erum í svipuðum fasa hvað varðar orkumálin. Við áttum þess kost í sumar að ræða við Evrópuþingmenn um orkutilskipunina. Þar er allt önnur hugsun í gangi en hjá okkur. Þetta gildir um allan þennan einkavæðingarferil, Póstinn, Símann, orkumálin, dreifinguna. Þar eru menn greinilega miklu meðvitaðri um hvað þeir eru að gera í þessum einkavæðingarfasa. Þeir sækja um undanþágur fyrir svæði og héruð þar sem ástunduð eru öðruvísi vinnubrögð, öðruvísi framleiðsla og á annan hátt en var á grunni nýrrar tilskipunar. Þetta er ekki gert hér. Hvað gera menn hér? Menn eru að svæla fólk úr dreifbýlinu með minnkandi þjónustu og aðgerðaleysi sem leiðir hægt og bítandi til þess að fólk treystir sér ekki til að búa afskekkt. Það getur það ekki vegna þess að það hefur ekki símaþjónustu, það hefur ekki internettengingu, póstburðargjöld eru mjög há o.s.frv. Svona grunnatriði verða að vera í lagi.

Ég virði það að menn hafi aðra sýn varðandi rekstur en ég hef. Við viljum hafa póst- og símaþjónustu, eins og mönnum er kunnugt, orkudreifikerfi og orkuframleiðslu í félagslegum rekstri. Ég get í sjálfu sér virt að menn hafi aðra skoðun og vilji einkarekstur á þessari þjónustu. En þá geri ég jafnframt þá lágmarkskröfu að þeim áformum fylgi áætlun um hvernig þeir ætli að veita þjónustuna þar sem hún er óarðbær. Það er grundvallaratriði.

Um þetta mál verður fjallað í hv. samgn. og ég mun fylgja því eftir þar.