Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 16:09:13 (1261)

2002-11-11 16:09:13# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú alltaf þetta stóra vandamál, að búa til verkefni, búa til störf sem leiða til starfsemi eða framleiðslu sem gefur arð. Ég vil bara undirstrika og ítreka að stjórn og stjórnendur Íslandspósts hafa verið að fara yfir þau mál eftir sérstakri ósk úr samgrn. að reyna að nýta pósthúsin betur. Ég vil að það komi alveg skýrt fram.

Aðeins út af því að veita megi dreifingarfyrirtækjum afslætti vegna þess að þau sinni söfnun pósts fyrir þá aðila sem dreifa miklu magni, þá held ég að það hljóti að vera í þágu m.a. hinna dreifðu byggða ef okkur tekst með breytingum á lögunum að lækka flutningskostnaðinn. Ég held að það geti ekki farið á milli mála að það ætti að vera til bóta og þar eiga allir að sitja við sama borð.

Ég held að mjög gagnlegt væri að hv. samgn. færi vandlega yfir þetta atriði af þessu gefna tilefni og hv. þm. getur orðið þátttakandi í þeirri skoðun í samgn. hvernig megi tryggja að með þessum breytingum getum við lækkað flutningskostnaðinn.