Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:31:52 (1273)

2002-11-11 17:31:52# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að það er sjálfsagt að skoða vel í efh.- og viðskn. hver áhrifin af breyttum árafjölda að því er varðar yfirfæranlegt rekstrartap kunna að verða. Það er bara eðlilegur liður í starfi nefndarinnar.

En ég hef bæði í dag og um daginn verið að fara yfir þau mál sem hv. þm. eru svona hjartfólgin að því er varðar skattbyrðina. Hvað ætlum við að gera? Hvað höfum við verið að gera? Ég hef sagt að það á að reyna að nálgast þessi mál markvisst. Það á ekki að gera það með því t.d. að hækka skattfrelsismörkin um miklar fjárhæðir vegna þess að það er ómarkvisst og kostar mikla peninga. Það kemur fram í svarinu við fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. En við höfum verið að hækka barnabætur. Við höfum verið að afnema skattskyldu húsaleigubóta. Við höfum auðvitað fyrst og fremst beitt okkur fyrir því að efnahags- og atvinnulífið okkar væri þannig að það gæti skilað fólki betri kjörum, meiri kaupmætti og þess háttar. Það er kjarni málsins og um það snúast þessar deilur. Vilja menn frekar horfa á það sem fer í skattinn eða það sem situr eftir þegar búið er að borga skattinn? Um það sýnist mér að menn séu endalaust að deila.

Síðan má ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að millifæranlegur persónuafsláttur verður 100% milli maka frá og með næstu áramótum. Það hjálpar mjög mörgum láglaunafjölskyldum. Það er ekki minnsti vafi á því, t.d. fólki þar sem annar makinn er heimavinnandi með börn, fyrir utan stórkostlega lækkun eignarskatta sem ekki síst gagnast eldra fólki.