Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:36:14 (1275)

2002-11-11 17:36:14# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur glöggt fram í máli þingmannsins að hún hefur ekki enn þá áttað sig á því út á hvað stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart skattlagningu fyrirtækja gengur. Hún gengur ekki út á það að hygla fyrirtækjum vegna þess að fyrirtæki eru ekki einstaklingar eða neytendur eða fólk. Þetta byggist á því, hv. þm., að gera fyrirtækjunum kleift að skapa meiri arð, skapa meiri hagnað og möguleika til þess að bæta lífskjörin í landinu. Þar er uppspretta verðmætanna í landinu. Það er í atvinnulífinu, hv. þm.

Þess vegna missir sá málflutningur að sífellt sé verið að hygla atvinnurekstrinum á kostnað einhverra annarra marks. Það er ekki á kostnað neins sem verið er að því heldur einmitt þvert á móti. Það er til þess að skapa betri skilyrði í framtíðinni sem slíkar breytingar eru gerðar. Þar fyrir utan má benda á að í tekjuáætluninni með skattkerfisbreytingunum í fyrra kom glöggt fram að stærri hluti þeirra breytinga beindist beint að einstaklingum en fyrirtækjum, í það minnsta fyrst í stað. Þingmaðurinn ætti að hætta að væna menn, væna ráðherra, ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann um þessa hluti og einhvern sérstakan illvilja í garð þeirra sem minna bera úr býtum. Það er bara algerlega rangt.