Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:45:23 (1277)

2002-11-11 17:45:23# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. verði að fara aðeins betur ofan í saumana á þessu máli hjá sér. Hann ruglar hér saman ýmsum hugtökum. Þó er sérstaklega reynt í svarinu að útskýra hvað þau þýða. Hann blandar saman persónuafslætti og skattfrelsismörkum og hann virðist ekki átta sig á því, því að það kemur fram í spurningunni sjálfri, að hækkun persónuafsláttar eykur ráðstöfunartekjurnar um sömu upphæð. Það þarf ekki að spyrja að því, herra forseti, þó að það sé gert hér og það á heldur ekki að þurfa að spyrja að því hvaða áhrif það hefur á tekjur sveitarfélaganna vegna þess að það liggur alveg fyrir að það hefur engin áhrif á þau.

Það sem kemur fram í þessari töflu staðfestir nákvæmlega það sem ég sagði og þingmaðurinn vitnaði til. Ef skattfrelsismörkin hækka um rúmlega 1.000 kr., fara t.d. úr 70.279 fyrir launamann í 71.405, þá aukast ráðstöfunartekjurnar þarna um nálega 400 kr. Þetta eru reyndar rúmlega 1.000 kr. í skattfrelsismörkum. Þúsund krónurnar gefa 385 í vasann vegna þess að skatthlutfallið er 38,54. En þetta kostar ríkissjóð á milli 900 og 1.000 millj., 935 stendur hér.

Kannski hefði ég mátt kveða skýrar að orði í svari mínu sem þingmaðurinn vitnaði í og segja: Ég var að tala um skattfrelsismörk og ráðstöfunartekjur á mánuði en útgjöld ríkissjóðs á heilu ári. En það á heldur ekki að þurfa að taka það fram því það er alltaf í því samhengi sem menn tala um þetta. Menn tala um skattfrelsismörk á mánuði. Persónuafsláttur reiknast mánaðarlega og menn tala auðvitað um tekjur ríkissjóðs miðað við heilt ár.