Samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 13:33:33 (1285)

2002-11-12 13:33:33# 128. lþ. 27.91 fundur 234#B samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[13:33]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að nauðsynlegt er að taka þetta mál upp á Alþingi, þessa niðurstöðu Alþjóðasambands lækna, einkum og sér í lagi í ljósi þess að ágreiningurinn mikli sem stóð um gagnagrunnsfrv. á sínum tíma, ágreiningnum um hvort gagnagrunnslögin stæðust alþjóðlegar siðareglur á þessu sviði var að hluta til vísað til þeirrar vinnu sem nú hefur fengist niðurstaða í hjá Alþjóðasamtökum lækna. Niðurstaðan er eindregin. Hún er sú að þessi lög standist ekki þær alþjóðlegu siðareglur sem við erum skuldbundin af að hlíta og þar á meðal Helsinki-yfirlýsinguna. Það snýr að því að ekki sé leyfilegt að nota upplýsingar úr sjúkraskrám nema með upplýstu samþykki sjúklings.

Herra forseti. Þetta er grundvallarforsenda fyrir lögunum um gagnagrunninn og mjög mikilvægt að þetta mál sé tekið til umræðu hér á Alþingi í ljósi þess að þeim ágreiningi var vísað til umræðu hjá alþjóðasamtökunum og því hljótum við að spyrja hæstv. ríkisstjórn hvort ekki standi til að breyta lögunum í samræmi við þá niðurstöðu sem nú hefur fengist á þessum vettvangi.