Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:06:29 (1294)

2002-11-12 14:06:29# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég hef þá tilfinningu fyrir þessu máli að það sé tiltölulega vel unnið miðað við þann farveg sem hæstv. ráðherra hefur kosið að setja þau mál í, en hann er auðvitað þröngur og erfiður vegna þess að menn hafa ekki lagt í þá vinnu og það pólitíska samráð sem þarf til að ná nauðsynlegum ákvörðunum til að koma á betri skipan hvað varðar þessi mál í heildina. Í sjálfu sér er lýsandi fyrir það sem ég er hér að segja það sem stendur í 1. mgr. 4. gr. frv.:

,,Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögunum.``

Þarna er verið að vísa til þess að þau yfirráð hinna ýmsu ráðuneyta yfir þeim svæðum og málum sem um er að ræða skarast meira og minna. Að minnsta kosti fjórir hæstv. ráðherrar geta verið að skarka í sama firðinum þegar um er að ræða að skipta sér af atvinnustarfsemi sem getur valdið mengun. Mér finnst dálítið skrýtið að sjá að í þeirri upptalningu sem er í frv. um bráðamengun er t.d. talað um eldi sjávar og ferskvatnslífvera með fráveitu til sjávar, en það er ekki talað um neina aðra starfsemi af þessu tagi. Það er orðið ljóst núna að sjútvrn. mun hafa yfirstjórn með fiskeldi ef um er að ræða --- hvað á maður að kalla það, sjófiska, en landbrn. er síðan með yfirstjórn mála ef um er að ræða lax. Iðnrn. hefur með það að gera þó að það sé ekki meira en taka möl af sjávarbotni og umhvrh. á síðan að bera ábyrgð á öllu þar fyrir utan. Þetta verður auðvitað erfið ganga og það verður vont að finna hvar mál rekast ekki á. Að vísu er hæstv. umhvrh. með dálítið víðtækar skilgreiningar í þessari upptalningu eins og stendur hér í töluröð, nr. 37. Annar sambærilegur atvinnurekstur. Sambærilegur við hvað? Allt sem á undan er talið? Það gæti orðið býsna víðtækt sem um væri að ræða. En ef kveðið er á um það í öðrum lögum að annað ráðuneyti hafi einhver afskipti af viðkomandi atvinnurekstri þá heyri það þar undir en ekki undir hæstv. umhvrh.

Ég hef þá skoðun að þetta sé ekki gott fyrirkomulag og menn muni lenda í vanda út af þessu. Á einum stað er tekið á þessu máli og það er jákvætt. Það er gagnvart sveitarfélögunum. Ef ég skil þetta rétt, þá er með þessu verið að skýra málin gagnvart sveitarfélögunum, að þau hafi þá klárlega undir umhvrn. og stofnunina að sækja hvað varðar eftirlit með starfsemi af því tagi sem talin er hér upp.

Ég fæ tækifæri til að fara yfir þetta í nefndinni þannig að ég ætla ekki að ræða mikið um einstök atriði. Ég vek þó athygli á því að í 20. gr. þar sem talað er um strönduð skip er verið að tala um á einhverjum stað, svo að ég fari ekki að lesa upp greinina, að ef skip strandi þá sé eiganda skylt að fjarlægja skipið innan sex mánaða. Ég vil meina að með því ákvæði sé í raun og veru verið að setja málin í þá stöðu að viðkomandi geti látið skipið liggja þarna þó að hann hafi hugsanlega kost á því að fjarlægja það fyrr. Mér finnst að það þurfi að vera mjög skýrt að ráðuneytið hafi þarna ráð í hendi sinni ef á þarf að halda. Allir vita að skip geta ekki legið í sex mánuði á öllum strandstöðum á Íslandi. Það verður ekki mikið eftir af þeim eftir þann tíma ef þau hafa strandað. Það er því oft nauðsynlegt að farið sé í mjög kostnaðarsamar aðgerðir strax ef á að taka á málinu á annað borð. Ég vil meina að það þurfi að fara yfir þetta og skoða.

Það sem ég vil segja um þetta til viðbótar er eingöngu það að nú er orðið ljóst að sú ríkisstjórn sem situr í dag mun ekki taka á þeim málum sem ég nefndi fyrr, þ.e. að fara í þá miklu endurskipulagningu á Stjórnarráðinu sem nauðsynleg er til að þessi mál komist í skýrara ástand og meira til nútímans heldur en orðið er. Það ætlar að verða að mér finnst allt of löng ganga sem hófst með því að umhvrn. var stofnað. Ég hefði talið að menn hefðu í dag átt að vera komnir í þá stöðu að sú endurskipulagning sem óhjákvæmlega fylgir því þyrfti að vera komin lengra og hæstv. umhvrh. hefði að mér finnst átt að hafa metnað til þess að klára kjörtímabil sitt með því að leggja til nýskipan þessara mála en ekki að koma með svona, ég vil segja neyðarlega útgáfu af því að vera þó í einlægni að reyna að gera eitthvað.