Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:43:21 (1297)

2002-11-12 14:43:21# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki gera mikið úr þeim vanda sem ég tel fylgja því að svo mörg ráðuneyti og aðilar í þjóðfélaginu eru í raun og veru að eiga við sömu hlutina. Það er þannig að sjútvrn. hefur með fiskeldi að gera, landbrn. hefur líka með fiskeldi að gera, þ.e. laxeldi og því um líkt, iðnrn. hefur með námuvinnslu að gera ef um það er að ræða. Allt getur þetta verið á sama svæðinu. Samgrn. hefur með það að gera ef mengun verður í höfnum og öðru slíku og í frv. er gert ráð fyrir því að dómsmrh. geti gripið inn í gegnum Landhelgisgæsluna ef á þarf að halda eins og sagt er og lítið er það nú skilgreint. Ég geri ráð fyrir að það ákvæði sé kannski til komið vegna Víkartindsslyssins hér við land, þá hafi menn talið að á lagaúrræði þyrfti að halda ef þyrfti að grípa inn í.

Til viðbótar þessu hafa sveitarfélögin líka haft með hluti af þessu tagi að gera. Allt getur þetta verið á sama svæðinu. Ég ætla umhvrn. meira hlutverk en hér er gert ráð fyrir og tel að mjög skynsamlegt væri að umhvrn. hefði yfirumsjón með öllu eftirliti hvað varðar mengun og áhrif á náttúruna í sjónum, í kringum landið og við strendurnar. Mér fyndist að út frá því sjónarmiði hefði átt að nálgast þessi mál og leyfi mér að líta þannig á að þetta sé bráðabirgðaáhlaup á það að reyna að koma málum í betra horf.