Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:48:32 (1301)

2002-11-12 14:48:32# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði í svörum hæstv. umhvrh. sem ég vil gera athugasemdir við. Ég þakka fyrir svörin en verð að segja að mér líst ekki vel á svarið hvað varðar Landhelgisgæsluna. Svarið er ósköp einfaldlega að þetta eigi ekki að leiða til aukins kostnaðar. Með öðrum orðum, á mannamáli sagt: Landhelgisgæslan á ekki að fá eina einustu krónu í viðbót en á þó að taka á sig allviðamiklar lagalegar skuldbindingar. Ég á erfitt með að sjá hvernig Landhelgisgæslan, sem er ekki aflögufær eins og allir vita og getur nánast naumlega haldið einu skipi á sjó stóran hluta ársins, á að axla þessar skyldur og sinna þannig að forsvaranlegt og fullnægjandi sé án þess að tillit sé tekið til þess í auknum kostnaði. Það á að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Ef Landhelgisgæslan á að sinna þessu hlutverki og ná að skila því starfi held ég að óhjákvæmilegt sé að horfa til þess að hún fái einhverja fjármuni til þess, nema menn ætli að draga enn frekar saman hefðbundið gæsluhlutverk Gæslunnar.

Ég sé ekki betur en að til sögunnar eigi að koma mengunarvarnabúnaður í skipum Gæslunnar til viðbótar við það sem áður hefur verið í landi. Menn hljóta að þurfa einhverja þjálfun í meðferð slíks búnaðar, hljóta að þurfa að halda æfingar og sinna þessu eftirliti, m.a. með því að sannreyna að upplýsingar séu réttar, fara um borð í skip o.s.frv.

Í öðru lagi, varðandi siglingaleiðirnar, spurði ég ekki síst út af því að það er mat margra, og glittir reyndar þegar í það, að siglingaleiðir kunni að opnast í Norðurhöfum þar sem hafís hefur áður lokað leiðum, gamla norðvesturleiðin og jafnvel að siglingaleiðir norðan við Síberíu verði færar. Þá berast böndin einmitt að Rússlandi og hinum miklu umsvifum þeirra á þessum sviðum. Geri gróðurhúsaloftsáhrif það að verkum að þarna verði farið að sigla þá væri ástæða til að hafa áhyggjur af hinum norðlægu siglingaleiðum.

Mér virðist sem málefni strandanna séu skilin eftir opin og ég hvet til þess að þau verði skoðað vandlega í hv. þingnefnd.