Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:50:52 (1302)

2002-11-12 14:50:52# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins koma inn á það varðandi kostnað Landhelgisgæslunnar að í umsögn fjmrn. kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir auknum kostnaði, en ég vil þó tiltaka það sem kemur fram í 19. gr.:

,,Umhverfisstofnun skal hafa yfir að ráða flytjanlegum mengunarvarnabúnaði til að takast á við óhöpp utan og innan hafnarsvæða eftir því sem þörf er á. Enn fremur skal stofnunin sjá um að koma upp nauðsynlegum mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og um borð í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands.``

Umhverfisstofnun á að sjá til þess að þessi búnaður sé um borð í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands.

Varðandi vöktunina þá er ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði. Það er samningur í gildi núna um þessi mál þannig að það er ekki gert ráð fyrir aukakostnaði vegna vöktunarinnar sjálfrar.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í fyrri svörum mínum varðandi flutning á geislavirkum efnum. Það er ekkert sem bendir til þess að við stöndum frammi fyrir því í augnablikinu en ég deili þeim áhyggjum sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Fari menn að huga að því að flytja geislavirkan úrgang nálægt Íslandi tel ég að þar yrði um mjög alvarlegt mál. Við þyrftum að halda þannig á spilunum að við mótmæltum því hástöfum.