Úrvinnslugjald

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 15:34:26 (1315)

2002-11-12 15:34:26# 128. lþ. 27.8 fundur 337. mál: #A úrvinnslugjald# frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um úrvinnslugjald.

Á 126. löggjafarþingi lagði ég fram frv. til laga um úrvinnslugjald sem ekki náði fram að ganga á því þingi. Frv. hafði hið sama markmið og það frv. sem hér er nú lagt fram, þ.e. að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar.

Frv. þetta er nokkuð breytt frá fyrra frv., svo sem að ekki er gert ráð fyrir að tilgreind sé hámarksupphæð úrvinnslugjalds í lögum sem síðan sé ákvörðuð nánar með reglugerð, heldur er lagt til að fjárhæð úrvinnslugjalds sé ákvörðuð í lögunum sjálfum. Þá er ekki gert ráð fyrir að sérstök nefnd skipuð af ráðherra sjái um framkvæmd laganna, heldur opinber stofnun, Úrvinnslusjóður. Mun ég gera nánari grein fyrir efni frv. hér á eftir.

Frv. þetta er samið af nefnd sem ég skipaði 4. mars 2002. Í nefndinni áttu sæti, auk fulltrúa umhvrn., fulltrúar frá fjmrn., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.

Nefndinni var falið það hlutverk að vinna frv. um gjaldtöku vegna úrvinnslugjalds, spilliefnagjalds og skilagjalds, svo og skipulag og framkvæmd gjaldtökunnar. Verði frv. þetta að lögum er hinni nýju löggjöf ætlað m.a. að koma í stað laga nr. 56/1996, um spilliefnagjald, og laga nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, hin síðarnefndu þó ekki fyrr en 1. janúar 2008, sbr. ákvæði til bráðabirgða II.

Í byrjun ársins 2000 skipaði ég samstarfsnefnd um endurnýtingu úrgangs og fékk nefndin það hlutverk að gera tillögur um aðgerðir sem stuðlað gætu að aukinni endurnýtingu úrgangs, og tillögur um lagasetningu í því skyni. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Fagráði um endurnýtingu úrgangs, FENÚR, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Samstarfsnefndin lagði til að sett yrði sérstakt gjald á tilteknar vörur, þ.e. ökutæki, vinnuvélar, tilteknar umbúðir og hjólbarða, til að unnt væri að endurnýta eða endurnota þann úrgang sem af þeim hlýst.

Á síðasta áratug hafa miklar breytingar orðið í sorphirðumálum hér á landi. Aukinn áhugi á umhverfismálum hefur leitt af sér auknar kröfur einstaklinga, sveitarfélaga og atvinnulífs til þess að vörur hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið og að markvisst sé tekið á málum er varða úrgang. Segja má því að lyft hafi verið grettistaki í þessum málum á síðustu árum. Þá hefur aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningnum, haft í för með sér ýmsar skyldur á sviði sorphirðumála sem teknar hafa verið upp af hálfu stjórnvalda.

Við gerð frv. þessa var tekið mið af þeim skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist á grundvelli EES-samningsins, samanber tilskipun 94/62/EB, um umbúðir og umbúðaúrgang, tilskipun 1999/31/EB, um urðun úrgangs, og tilskipun 2000/53/EB, um úr sér gengin ökutæki. Einnig var litið til almennra tilskipana um úrgang og tilskipana um bann og takmörkun á tilteknum efnum.

Lögleiðingu tilskipunar um umbúðir og umbúðaúrgang er lokið hér á landi en frv. er ætlað að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu umbúða samkvæmt tilskipuninni.

Samkvæmt tilskipun um úr sér gengin ökutæki þarf að setja upp kerfi sem tryggir móttöku allra bílflaka og að því marki sem unnt er einnig til annars úrgangs og hluta sem fjarlægðir eru þegar gert er við ökutæki. Öll úr sér gengin ökutæki ber að færa til endurnýtingar í endurnýtingarstöð.

Til að uppfylla ákvæði framangreindrar tilskipunar er í frv. lögð til sú leið að leggja úrvinnslugjald á öll skráð ökutæki og að þeir fjármunir sem þannig verða innheimtir verði notaðir til að greiða fyrir söfnun og endurnýtingu ökutækjanna.

Samkvæmt tilskipun um urðun úrgangs verður á næstu árum í áföngum bannað að urða tiltekinn úrgang, þar á meðal hjólbarða. Því er nauðsynlegt að auka endurnýtingu á hjólbörðum hérlendis og er í frv. lagt til að það verði gert með því að leggja úrvinnslugjald á þá.

Íslensk stjórnvöld hafa sett það markmið að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna, og að úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu, samanber ákvæði reglugerðar nr. 805/1999 um úrgang.

Eitt af markmiðum tilskipunar um urðun úrgangs er að draga úr magni úrgangs sem fer til urðunar. Frv. þetta er sett fram til að skapa hagræn skilyrði til að ná framangreindum markmiðum en með því er ætlað að innleiða eins hagkvæmar lausnir á framkvæmd úrgangsmála og kostur er þar sem þeir aðilar sem bera ábyrgð á málaflokknum, þ.e. sveitarfélög og atvinnulífið, hafi frumkvæði og samvinnu um framkvæmdina.

Ég mun nú, virðulegur forseti, gera grein fyrir helstu efnisatriðum frv.

Í frv. er lagt til að farin verði svipuð leið og mörkuð er í lögum um spilliefnagjald og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur hvað varðar hagrænar leiðir þannig að sköpuð séu hagræn skilyrði fyrir úrvinnslu þeirra vara sem frv. tekur til.

Samkvæmt 5. og 8. gr. frv. er heimilt að leggja gjald á þær vörur sem þar eru tilgreindar til að standa straum af kostnaði vegna úrvinnslu þess úrgangs sem af þeim leiðir. Í 8. gr. er vísað til viðauka 1--16 með frv. en þar eru þessar vörur skilgreindar með tollskrárnúmeri og kveðið er á um fjárhæð úrvinnslugjalds á hvert tollskrárnúmer. Hér er um að ræða vörur sem verða að spilliefnum, auk allra rafhlaðna. Þetta eru vörur sem falla undir gildissvið laga um spilliefnagjald fyrir utan rafhlöður sem innihalda ekki spilliefni. Gert er ráð fyrir að lagt verði úrvinnslugjald á allar rafhlöður hvort sem þær innihalda spilliefni eða ekki.

Þá er lagt til að undir frv. falli heyrúlluplast, hjólbarðar, ökutæki og samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur en þar er m.a. um að ræða allar umbúðir undir mjólk, mjólkurvörur og ávaxtasafa.

Eins og áður sagði er lagt til að lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur verði felld undir frv. 1. janúar 2008 en undir þau lög falla einnota drykkjarvöruumbúðir. Þannig er gert ráð fyrir að undir frv. muni falla allar þær vörur sem bera úrvinnslugjöld og umsýsla þessarar gjaldtöku verði færð á einn stað, til Úrvinnslusjóðs, sem ég mun gera nánari grein fyrir á eftir.

Gert er ráð fyrir að úrvinnslugjald verði lagt á framangreindar vörur við innflutning eða framleiðslu varanna áður en þær fara á markað. Þeir sem skulu greiða úrvinnslugjald eru þeir sem flytja inn þessar vörur til endursölu eða eigin nota og þeir sem framleiða þær innan lands.

Skráðum eigendum ökutækja ber að greiða úrvinnslugjald vegna ökutækja að fjárhæð 1.040 kr. ár hvert.

Þær vörur sem frv. tekur til eru hugsaðar sem fyrsta skref til að draga úr magni úrgangs. Þegar reynsla hefur fengist af framkvæmd laganna, verði frv. að lögum, og þegar frekari vinna hefur farið fram varðandi umfang annarra vöruflokka, svo sem rafeindatækja, munu væntanlega fleiri vöruflokkar bætast við og verða felldir undir lögin eftir því sem ástæða er talin til.

Í ákvæði til bráðabirgða III er lagt til að pappírs-, pappa- og plastumbúðir beri úrvinnslugjald frá 1. janúar 2004. Það kemur í hlut Úrvinnslusjóðs á næsta ári að gera tillögur til ráðherra um fjárhæð úrvinnslugjalds á þessa vöruflokka.

Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun sem beri heitið Úrvinnslusjóður, sbr. 14. og 15. gr., en henni er ætlað að sjá um framkvæmd laganna og hafa umsýslu með úrvinnslugjaldi. Tekjum af úrvinnslugjaldi er ætlað að renna óskipt til Úrvinnslusjóðs, að undanþegnu umsýslugjaldi til ríkissjóðs sem er þóknun fyrir álagningu og innheimtu úrvinnslugjalds.

Lagt er til að í stjórn Úrvinnslusjóðs sitji fimm fulltrúar, sbr. 16. gr., og eru fjórir fulltrúar skipaðir frá eftirtöldum aðilum:

Einn sameiginlega frá Samtökum fiskvinnslustöðva og Landssambandi íslenskra útvegsmanna, einn frá Samtökum iðnaðarins, einn frá Samtökum verslunar og þjónustu og einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en ráðherra skipar formann sjóðsins.

Samsetning stjórnar endurspeglar því mikilvægt samstarf atvinnulífs og sveitarfélaga eins og ég minntist á. Stjórninni er ætlað að hafa yfirumsjón með starfsemi Úrvinnslusjóðs og bera ábyrgð á starfsemi hans gagnvart ráðherra. Úrvinnslusjóði ber að móta stefnu um meginstarfsemi sjóðsins, svo sem um þau verkefni sem hann hefur með höndum og helstu áherslur í starfsemi hans. Stjórn Úrvinnslusjóðs gerir tillögur til ráðherra eftir því sem við á um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds og um nýjar gjaldskyldar vörur. Við slíka tillögugerð ber stjórninni að taka mið af skuldbindingum stjórnvalda, svo sem á grundvelli EES-samningsins og stefnumörkunar stjórnvalda.

Þá getur stjórnin lagt fram tillögu um að leggja skilagjald á vörur til að ná fram auknum skilum hennar. Skilagjöld eru nú greidd af einnota umbúðum undan drykkjarvöru en í frv. er gert ráð fyrir að ökutæki beri einnig skilagjald, 10.000 kr. Þannig skal endurgreiða hverjum þeim þá upphæð sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endanlegrar endurnýtingar eða förgunar.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið hér efni frv. í megindráttum. Ég legg áherslu á að góð sátt er um meginefni þess hjá Samtökum atvinnulífs, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.