Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:01:41 (1319)

2002-11-12 16:01:41# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til endurreisnar íslenskum skipaiðnaði.

Þetta er 38. mál þingsins, á þskj. 38, og flm. ásamt mér er hv. þm. Jón Bjarnason.

Hér er um að ræða endurflutta tillögu frá síðasta þingi. Hún var lögð fram undir lok síðasta þings, en varð þá ekki útrædd.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd fulltrúa sem tilnefndir verði af öllum þingflokkum, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands, auk formanns sem iðnaðarráðherra skipar, til að fullmóta og hafa yfirumsjón með aðgerðum til endurreisnar íslenskum skipaiðnaði. Sérstök áhersla verði lögð á aðgerðir til að bæta samkeppnisskilyrði greinarinnar, auðvelda fjármögnun verkefna og tryggingar vegna útflutnings, auka menntun fagfólks og styrkja rannsóknir og þróunarstarf í skipaiðnaði og tengdum greinum.``

Þess ber að geta, herra forseti, að þegar tillagan var flutt hér upphaflega seint á síðasta þingi, þá stóð yfir verkefni í samstarfi iðnrn. og Samtaka iðnaðarins og Málms, samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, sem miðaði að því að gera úttekt á raunverulegum starfsskilyrðum skipaiðnaðarins og móta stefnu í málefnum greinarinnar. Nú hefur verið lögð fram skýrsla sem greinir frá niðurstöðum þeirrar vinnu, þess verkefnis, og þar er að finna allgóða úttekt á stöðu greinarinnar og í ýmsum tilvikum tillögur um aðgerðir sem til bóta mundu horfa. Það má því segja að nú hafi sú framþróun orðið í málinu frá síðasta þingi að fyrir liggi að mestu leyti nauðsynleg gögn, ný gögn þar sem staða greinarinnar er kortlögð og tekið á helstu þáttum sem standa þessari merku atvinnugrein fyrir þrifum og gera það að verkum að hún hefur átt erfitt með að fóta sig eða snúa vörn í sókn á undanförnum missirum, eins og væri þó ærin ástæða til.

Tillagan gengur því í raun og veru út á eða það má líta svo á að hún sé til stuðnings þessu starfi hér inni á þingi og gerir ráð fyrir að því verði þá fylgt eftir með nauðsynlegum aðgerðum, sem í langflestum tilvikum liggur fyrir hverjar þyrftu að vera, gerði það út af fyrir sig í ýmsum greinum áður en nú er það skýrara en ella þar sem þessi vinna hefur farið fram.

Kunnara er en frá þurfi að segja, herra forseti, að skipasmíðar og þjónusta við skip og skipaútgerð eiga sér langa sögu á Íslandi sem eðlilegt hlýtur að teljast hjá eyþjóð og sjósóknaraþjóð. Á köflum hefur dafnað hér blómlegur iðnaður sem hefur skipt miklu í efnahagslífi okkar og skapað þúsundir starfa í landinu. Sú starfsemi hefur sparað þjóðinni umtalsverðan gjaldeyri þegar best lét og við vorum að byggja umtalsverðan hluta þess skipakosts sem við nýttum til fiskveiða og til siglinga. Það má sem dæmi taka að þegar mest var byggt hér af bátum, vertíðarbátum og jafnvel minni skuttogurum, og þegar jafnvel voru byggð hér innan lands strandferðaskip og fleiri flutningaskip, þá voru Íslendingar, þegar best lét, langleiðina sjálfbjarga í þessum efnum hvað það varðar að með innflutningi hráefna var fyrst og fremst byggt á innlendu hugviti og mannafli í greininni.

Síðan hefur verið viðvarandi hnignun í skipaiðnaðinum og greinin hefur átt í miklum erfiðleikum, gjaldþrot hafa riðið yfir, fyrirtækjum hefur fækkað til mikilla muna og rekstrarerfiðleikar hrjá mörg þeirra sem eftir eru. Sérstaklega hefur staða nýsmíða verið erfið og það má heita að nýsmíðar hafi að mestu leyti lagst af í landinu, sem er auðvitað ótrúlegt en satt, að nýsmíðar a.m.k. stærri skipa eru nánast aflagðar nú síðustu 5--10 árin, eða jafnvel 10--15 árin.

Staðan er reyndar, því miður, ekki mikið betri hvað varðar meiri háttar viðhaldsverkefni, en talsvert hefur verið af því gert á undanförnum árum að ráðast í meiri háttar endurbætur eða endurbyggingu gamalla skipa. Þannig hefur stór hluti nótaskipaflotans verið endurnýjaður eða talsvert mörg skip í þeim flota verið endurbyggð og í sumum tilvikum þannig að að lokum er um nánast algerlega ný skip að ræða, en slíkar stórframkvæmdir hafa í langflestum tilvikum verið unnar erlendis.

Það hefur meira að segja verið svo, svo dapurlegt sem það er, að raðsmíðaverkefni í bátaflotanum, í endurnýjun bátaflotans, hafa lent til útlanda, t.d. til Kína, án þess jafnvel að innlendum skipasmíðastöðvum hafi yfir höfuð gefist tækifæri til að bjóða í slík verk.

Það er auðvitað margt, herra forseti, sem veldur því hvernig komið er. Má nefna það sem eina meginástæðu að innlendur skipaiðnaður hefur meira og minna óstuddur af stjórnvöldum um langa hríð, mátt sæta mjög erfiðri samkeppni við ríkisstyrkta og niðurgreidda starfsemi i nágrannalöndunum. Þar hefur verið um margs konar styrki bæði byggðatengda styrki og niðurgreiðslu á fjárfestingar- eða fjármögnunarkostnaði að ræða og enn eimir eftir af þessu, jafnvel þó mikil viðleitni hafi verið í gangi, bæði á vegum alþjóðasamtaka og Evrópusambandsins að draga úr eða afnema þessa styrki. Heldur hefur ástandið skánað, en enn er það þó þannig að ef eitthvað er þá hallar á innlendu greinina í þessum efnum. Hér á landi virðist það ekki hafa átt upp á pallborðið að standa við bakið á íslenskum skipaiðnaði hvað þetta snertir og hann verið látinn mæta meira og minna óstuddur þessari bersýnilega ósanngjörnu samkeppni, enda hefur farið sem farið hefur.

Í öðru lagi má nefna, herra forseti, að innlendur skipaiðnaður hefur auðvitað sætt harðri samkeppni við lönd þar sem vinnulaun eru til muna lægri en hér og sú samkeppni hefur verið greininni erfið. Það gildir auðvitað um samkeppnisaðilana í nágrannalöndunum í öðrum Vestur-Evrópuríkjum eða öðrum löndum þar sem vinnulaun eru sambærileg eða hærri en hér. Og þá hafa menn gjarnan brugðist þannig við og á því hefur t.d. norskur skipaiðnaður byggt mikið að nýta sér upp að einhverju marki lágan framleiðslukostnað t.d. í stálvinnu, í Póllandi, Eystrasaltsríkjunum eða Kaliningrad, en flytja síðan skipsskrokka eða stálvinnu inn og ljúka smíðum og samsetningu í heimalöndunum. Íslenskur skipaiðnaður hefur aðeins nýtt sér slíkar aðferðir og náð niður framleiðslukostnaði með þeim, en þó ekki nálægt því í þeim mæli sem maður hefði viljað sjá. Þannig hafa nokkur af glæsilegustu fiskiskipum flotans í dag einmitt verið byggð þannig að skrokkarnir hafa verið byggðir annaðhvort í heilu lagi eða í einingum í Austur-Evrópuríkjum og þeir síðan fluttir til Noregs og þar hefur smíðinni verið lokið, tækjabúnaður settur niður og stór hluti virðisaukans í verkefnunum fellur þá til þar.

Engu að síður er það svo, herra forseti, að sem betur fer skína nokkur ljós í þessu myrkri niðurlægingar íslenska skipaiðnaðarins. Þar má nefna t.d. að fyrirtækið Ósey í Hafnarfirði hefur náð mjög athyglisverðum árangri í smíði minni fiskiskipa, bæði fyrir innlendan markað og reyndar einnig til útflutnings og hafa verið fluttir þaðan fiskibátar, nýtísku fiskibátar í minni kantinum, gæðaframleiðsla, bæði til Færeyja og Írlands að ég hygg og möguleikar eru á talsverðum útflutningi á þennan markað ef fyrirtækinu tekst að höndla þá möguleika sem það telur sig hafa í þeim efnum.

En þar hafa ýmsir þröskuldar og ýmis ljón verið í veginum og að hluta til er komið inn á það í þessari tillögu og sömuleiðis í þeirri úttekt í samstarfsverkefni ráðuneytisins og iðnaðarins sem ég gat um fyrst í máli mínu. Þar er til að mynda komið inn á það atriði sem hefur reynst mönnum erfitt hvað varðar fjármögnun á byggingartíma, að skip fást ekki skráð hér fyrr en þau hafa fengið sjóhæfnisvottorð, eða a.m.k. ekki fyrr en að byggingu er meira og minna lokið, hér þekkist ekki forskráning af því tagi að heimilt sé að gefa skipsskrokki númer í smíðinni þannig að hann myndi nothæft veð, og hér er skortur á því að útflutningslán eða kreditlán séu veitt með sambærilegum hætti og samkeppnisaðilum erlendis virðist standa til boða. Þannig að ýmislegt af því tagi sem ætti nú að vera leysanlegt, veldur mönnum hér erfiðleikum og er satt besta að segja ótrúlegt að hlusta á sögur af því hvernig mönnum hefur gengið að glíma við slíka hluti.

Það er sem sagt svo, herra forseti, að sérstaklega stóru fyrirtækin í þessari grein hafa öll meira og minna átt í miklum erfiðleikum, þau sem eftir eru og eru nú ekki mörg. Og það gildir auðvitað þar með um þá máttarstólpa greinarinnar þar sem áður voru unnin stærstu verkefnin, þar sem menn höfðu afköst, mannafla og búnað til að ráðast í stærri verkefni, stór viðhalds- og viðgerðarverkefni, upptöku stærri skipa eða nýsmíðar á stærri skipum. Sérstaklega á þessu sviði hefur ástandið verið dapurlegt.

Það er vissulega rétt að geta þess einnig að á köflum hefur verið talsverð gróska í nýsmíði smábáta, plastbáta eða hraðfiskibáta af ýmsu tagi hjá þó nokkrum fyrirtækjum og enn er þar verið að vinna þróunarstarf og skilar glæsilegri framleiðslu, eins og ég hygg að hv. þm. kannist við, a.m.k. þeir sem hafa verið tíðir gestir eða reglulegir gestir á sjávarútvegssýningum, en gjarnan er aðkoman að slíkum sýningum m.a. skreytt með glæsilegum nýjum sýnishornum af framleiðslu þeirra fyrirtækja sem vinna við nýsmíðar eða endurbyggingar og stækkanir á plastbátum.

Hins vegar verður að segjast eins og er, herra forseti, að ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða, þá er ekkert sérstakt í sjónmáli sem teiknar til mikið betri tíðar í þessum efnum. Maður gæti bundið vonir við að kannski tækist þeim takmarkaða iðnaði sem eftir í landinu og fyrst og fremst byggir á viðhaldsverkefnum, að halda sjó því sjálfsagt verður lengi þörf fyrir einhverja lágmarksumönnun hér og menn ætlast auðvitað til þess að hún sé til staðar þegar á þarf að halda. En það sem tapast smátt og smátt eru afköst, verkþekking og ýmiss konar stoðgreinar sem þurfa að vera til staðar og tengjast slíkri starfsemi.

Eitt megineinkenni skipaiðnaðarins einmitt þegar hann var í sem mestum blóma voru gríðarleg margfeldisáhrif vegna þess að umsvif í skipasmíðastöðvunum hrísluðust út í iðnaðarsamfélagið þannig að mikill fjöldi undirverktaka í rafiðnaði, trésmíðum og ýmsum tengdum greinum fékk verkefni sem tengdust sjálfum smíðunum eða frágangi í skipum, viðhaldi o.s.frv.

[16:15]

Þar af leiðandi, herra forseti, að öllu óbreyttu eru verulegar ástæður til að hafa áhyggjur af framtíð greinarinnar. Að sjálfu leiðir að ekki er mikil ásókn í iðnnám sem þessu tengist eins og atvinnuhorfurnar hafa verið og allt upplit á þeirri grein. Og það er algjörlega fráleitt, herra forseti, að við getum unað því, þessi sjávarútvegs- og siglingaþjóð sem við erum, að þetta koðni svona niður í höndunum á okkur. Ég leyfi mér að segja það hér, herra forseti, að ég held að þetta sé ein mesta vanrækslusynd í íslenskum atvinnumálum sem stjórnvöld bera ábyrgð á á síðari áratugum, það er í raun og veru hvernig menn hafa horft allt of aðgerðalaust eða aðgerðalítið á það að þessi mikla hnignun gengi yfir þessa atvinnugrein, sem öðrum þjóðum í nágrenninu hefur tekist til mikilla muna betur að varðveita. Auðvitað hafa gengið yfir breytingar í greininni sem að hluta til eru alþjóðlegar og hún hefur að einhverju leyti færst til í heiminum, það vitum við. En þegar við berum það saman hvernig Íslendingar hafa glímt við þau mál og svo aftur nágrannaþjóðir eins og Norðmenn, þá er þar ólíku saman að jafna, enda er skipaiðnaður enn þá undirstaða blómlegs atvinnulífs í fjölmörgum byggðarlögum við sjávarsíðuna, sérstaklega á vesturströnd Noregs.

Herra forseti. Ég held að ekki þurfi að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni umræðu vísað til hv. iðnn. og ég bind vonir við að hún megi verða til þess að ýta á það að gripið verði nú til aðgerða á þessu sviði á grundvelli þess sem tillagan leggur til og á grundvelli þeirra gagna sem liggja nú fyrir í úttekt ráðuneytisins og iðnaðarins sem ég gerði grein fyrir áðan.