Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:16:55 (1320)

2002-11-12 16:16:55# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í þáltill. er gerð tillaga um skipun nefndar til að fullmóta og hafa umsjón með aðgerðum til að endurreisa skipaiðnað á Íslandi, áhersla verði lögð á aðgerðir til að bæta samkeppnisskilyrði greinarinnar, auðvelda fjármögnun og tryggingar, auka menntun og efla þróunarstarf er tengist greininni.

Efnislega eru hér á ferðinni sömu atriði og lágu til grundvallar sameiginlegri úttekt iðnrn., Samtaka iðnaðarins og Málms, sem er félag fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði. Úttektin lá fyrir síðasta sumar og var greinargerðin kynnt á fundi á Akureyri í september sl. Í þeirri úttekt kom fram að marga þætti þarf að bæta í umhverfi skipaiðnaðarins svo hann búi við svipuð samkeppnisskilyrði og þau lönd sem íslenskar smiðjur þurfa að keppa við. Slík jöfnun næst sennilega seint þegar um er að ræða lönd á borð við Kína og Kóreu þar sem smíðaverð á tonn er álíka og hráefnisverðið á hvert tonn fyrir óunnið stál sem við vinnum úr. Hins vegar er það raunhæft markmið að við getum búið íslenskum skipaiðnaði svipuð kjör og eru innan Evrópska efnahagssvæðisins og við erum bundin af þeim reglum sem þar gilda hvað varðar ríkisstyrki og aðra opinbera aðkomu.

Meginatriðið í þessu sambandi er að ríkisstyrkir til skipasmíða hafa nú verið aflagðir í Evrópu og fyrir liggur hvaða aðgerða er þörf til að vinna upp samkeppnisforskot annarra landa í Evrópu. Í tillögum til úrbóta sem birtar eru í niðurstöðum skýrslunnar eru talin fram fimm atriði sem byggjast á samvinnu stjórnvalda og skipaiðnaðarins. Framkvæmd þeirra kallar ekki á lagabreytingar og þær falla allar innan ramma þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

Aðilar málsins, þ.e. iðnrn., Samtök iðnaðarins og Málmur, eru nú þegar byrjaðir á framkvæmd tillagnanna og á þessari stundu vegur þyngst endurskoðun á fjármögnun smíðanna og tryggingar vegna útflutnings. Nú þegar eru fullgerð drög að frv. um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins en í því felst að skilgreina betur hlutverk tryggingardeildar útflutningslána og víkka út heimildir til að veita tryggingar og ábyrgðir er gagnast útflutningi skipa og búnaðar o.fl. Við höfum auk þess verið að liðka allt fjármögnunarferlið sem nú þegar hefur leitt til þess að þau skip og sá búnaður sem samið hefur verið um fyrir Færeyinga hefur fengið mun greiðari vegferð í gegnum kerfið.

Aðrar tillögur sem fram koma í greinargerðinni eru að einhverju leyti komnar á hreyfingu og vonast ég til að framkvæmd þeirra gangi vel en þau eru flest þess eðlis að þau eru viðvarandi umbótaverkefni innan fyrirtækjanna sem sennilega eiga sér engan ákveðinn endi heldur þróast og breytast eftir þörfum skipasmíðaiðnaðarins á hverjum tíma.