Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:24:43 (1323)

2002-11-12 16:24:43# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu augljóst mál að einn þröskuldurinn sem var íslenskum skipaiðnaði mjög erfiður var fjármögnunarþátturinn. Hér voru ekki við lýði neinir styrkir eða neinar vaxtaniðurgreiðslur á byggingartíma eins og var þegar hæst lét t.d. í Noregi og á Spáni þar sem gat munað verulegum fjárhæðum í endanlegu verði skipanna vegna þess að fjármagnskostnaður á byggingartíma var verulega niðurgreiddur og fleiri slíkir hlutir skekktu myndina.

Byggðastyrkina tel ég engu að síður að þurfi að athuga og auðvitað er það ekki markmið neinnar atvinnugreinar að lifa á styrkjum og ég er ekki að segja að það eigi að vera keppikeflið, að koma skipasmíðaiðnaðinum inn á einhverja styrki bara til að gera það. En það eru þó hlutir sem geta skipt þar miklu máli og ég nefni t.d. ef óhjákvæmilegt reynist að ráðast í fjárfestingar í upptökumannvirkjum eða öðrum slíkum dýrum stofnbúnaði sem getur reynst nauðsynlegur, t.d. til þess að vera samkeppnisfær hvað varðar afköst eða tæknilega möguleika á að taka upp sístækkandi skip og annað í þeim efnum. Þá er nokkuð ljóst að miðað við núverandi byggðastyrkjareglur Evrópusambandsins mættu aðilar veita þar umtalsverða styrki ef framkvæmdin er á viðurkenndum byggðaþróunarsvæðum. Og ég hygg nú reyndar að þetta mál hafi borið á góma á Íslandi þegar ríkið var fyrir sitt leyti að styrkja gerð upptökumannvirkja sem hluta af hafnarframkvæmdum á sínum tíma. En þessir tímar geta bankað upp á aftur og af þessu gætu menn þurft að hyggja.

Herra forseti. Ég endurtek og ítreka það að ég tel fullt efni til að skoða hvort þessi tillaga geti ekki fallið vel að því sem er þó verið að gera í þessum efnum og það hafi verið skynsamleg nálgun að fylgja þeim hlutum eftir, m.a. með þessum hætti.