Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:27:10 (1324)

2002-11-12 16:27:10# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:27]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það ber að þakka að þessi mál skuli vera tekin upp til umræðu í þinginu. Hins vegar er ekki hægt að gleðjast mikið yfir þeirri stöðu sem íslenskur skipaiðnaður er í. Það má segja að hægt sé að segja eins og karlinn: Það er of seint, Gunna. Þetta er allt saman búið að deyja tvisvar eða þrisvar. Skilningur íslenskra stjórnvalda og þeirra sem ráða íslensku þjóðfélagi á mikilvægi skipaiðnaðar hefur verið afar lítill í gegnum tíðina.

Mér er kannski minnisstæðast hve andstaða LÍÚ-forustunnar við íslenskan skipasmíðaiðnað kom skýrt fram í gegnum þó nokkuð mörg ár, og kom skýrt og greinilega fram í ræðum og viðbrögðum aðalforustumanns LÍÚ hvað eftir annað þar sem hann lýsti því yfir að hann teldi að íslenskir útgerðarmenn ættu að hafa allan rétt til þess að sækja þessa þjónustu annað og að það væri ekki á færi íslensks skipaiðnaðar að smíða og þjónusta skip sem þyrfti á að halda hér í útgerðinni. Ég hef stundum áður minnt á ræðu sem sá ágæti forustumaður hélt þegar skipið Bessi kom nýtt til Vestfjarða, en þá lýsti hann því yfir að slíkt skip gætu Íslendingar aldrei smíðað. Hann hefði þó átt að vita betur. Það var búið að smíða algjörlega sambærilega smíðisgripi á Íslandi og tækniþekking og verkkunnátta var alveg til staðar til að gera þá hluti. En þetta lýsir bara því við hvað menn áttu að stríða.

Íslensk stjórnvöld virtust heldur ekki hafa aðra skoðun en sá ágæti forustumaður LÍÚ á íslenskum skipaiðnaði og lyftu ekki hendi þó að hann legðist allur í rúst á fáeinum árum. Menn ruku svo upp með andfælum einhvern tíma eftir 1990 en þá var nú óvart þannig komið að flestar skipasmíðastöðvarnar fóru á hausinn, ég man ekki hvort það var ein eða tvær sem ekki fóru á höfuðið á þeim tíma.

[16:30]

Við höfum haldið áfram að láta smíða skip erlendis. Við höfum ekki treyst okkur til þess að skapa sambærilega möguleika til að standa í þessum iðnaði hér á landi. Ég tel reyndar að það hafi verið mikil skammsýni og að menn hafi í raun og veru aldrei fengist til að reikna dæmið til enda. Þegar farið var yfir þetta mál, ég held að það hafi verið 1992 eða 1993, kom hins vegar í ljós, þegar menn fóru að reikna þetta út, að styrkirnir sem aðrir voru að greiða til skipasmíðaiðnaðarins skiluðu sér margfalt til baka til ríkisins og þjóðfélagsins í heild. Þá var tekið myndarlega á þessum málum, a.m.k. miðað við það sem áður hafði verið. Lítið hafði það svo sem verið þar á undan.

En síðan hefur þetta farið í sama farið. Íslensk stjórnvöld hafa ekki einu sinni haft döngun í sér til að sjá til þess að verkefni sem hafa verið unnin fyrir ríkið beint hafi komið til Íslendinga. Þess er skemmst að minnast er viðhald var boðið út á tveimur skipum Landhelgisgæslunnar fyrir tveimur árum. Það þótti nauðsynlegt að bjóða það út á Evrópska efnahgssvæðinu. Gott og vel. En hvað gerðist? Það voru óvart Pólverjar sem fengu þetta verkefni. Það voru ekki einhverjir á Evrópska efnahagssvæðinu sem fengu verkefnið heldur Pólverjar. Einhvern veginn glopruðu menn þessu líka út úr höndunum á sér þrátt fyrir að tilboð frá Íslendingum í þetta verkefni væri ákaflega hagstætt. Svona hafa hlutirnir gengið fyrir sig.

Mér finnst líka ástæða til að minna á, vegna þess að í þessari tillögu er verið að tala um fagþekkingu og menntun og hæstv. ráðherra minntist á þá hluti hér líka áðan, að íslensk stjórnvöld hafa t.d. viðhaldið þeirri stöðu í gegnum tíðina. Það er engin nauðsyn á fagþekkingu eða menntun í skipaiðnaði á Íslandi. Það er ekki gerð nein krafa um slíkt, t.d. frá hendi Siglingastofnunar. Það er engin krafa um að þeir sem standa í skipasmíðum, hverju nafni sem þær nefnast og hvort sem þau eru smá eða stór skipin sem um er að ræða, hafi til þess neina fagmenntun. Það er dálítið skondið að segja frá þessu vegna þess að ef við tölum um sambærilega iðngrein, t.d. húsasmíði, gera menn kröfu um fagmenntun á öllum sviðum þeirra. En þegar kemur að skipasmíðunum er það ekki gert.

Hæstv. forseti, ég átta mig ekki alveg á því hvernig tíma mínum er háttað. Hér hefur verið mikið ,,ljósasjó`` þann tíma sem ég hef verið að tala, ýmist rautt eða grænt. Ég óska eftir að fá að vita hvort ég er búinn með tíma minn eður ei.

(Forseti (HBl): Ég hygg að hv. þm. eigi eftir eina mínútu.)

Takk fyrir það. Ég ætlaði svo sem heldur ekki að halda hér langa ræðu. Saga íslensks skipasmíðaiðnaðar síðustu 30 árin er saga glataðra tækifæra. Ég ætla að vona að núna þegar hjálpin kemur að utan, þegar menn loksins leggja af --- vonandi standa menn við það --- stuðning við skipaiðnaðinn hér í kringum okkur að þá beri menn gæfu til að standa vel að því að reyna að byggja hann upp aftur. Hér er um það að ræða að byggja upp aftur nánast alla þekkingu í þessari iðngrein. Það er að vísu mikil tæknileg þekking til staðar á Íslandi og auðveldara að byggja upp þessa iðngrein aftur í dag en var þegar menn gerðu djörfustu tilraunina til að byggja hana upp á árunum 1960--1970. Þetta ætti að geta gengið betur en ég óska mönnum sannarlega velfarnaðar og vona að menn standi við þau orð sem hafa fallið um að til þess hafi menn mikinn vilja.