Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:34:58 (1325)

2002-11-12 16:34:58# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um aðgerðir til endurreisnar á íslenskum skipaiðnaði sem ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytjum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert ítarlega grein fyrir tillögunni og þeirri umgjörð sem íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur búið við. Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en var þá ekki útrædd en þó skilaði hún sér inn í umræðuna. Ég er viss um að tillöguflutningurinn þá hefur þó haft þau áhrif að nokkuð hefur verið rekið eftir þessum málum af hálfu stjórnvalda.

Ef við lítum aðeins til baka, herra forseti, þá var hér gríðarlega mikill skipaiðnaður fyrir nokkrum áratugum. Ísland er jú eyþjóð og við höfum lengst af átt afkomu okkar undir sjósókn og því að geta farið á bát meðfram ströndum landsins. Þetta hefur skilað okkur því að um aldaraðir, fram á síðustu ár, hefur verið afar sterk og rík fag- og verkþekking í skipasmíðum. Sú þekking skilaði sér í því að við höfðum á síðustu áratugum öflugan skipasmíðaiðnað.

Það stingur mjög í stúf að upplifa á síðustu árum að skipasmíðaiðnaðurinn hefur nánast allur flust úr landi, stór hluti af nýsmíði og einnig stöðugt stærri hluti viðgerða við skip. Þetta getur alls ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt. Mér er ómögulegt að skilja að það skuli borga sig fyrir íslenska þjóð að láta verkþekkingu sem hér var byggð upp drabbast niður af vannýtingu og ekki fá að þróast og eflast. Það getur ekki verið hagkvæmt að láta svo mikinn þekkingarauð liggja vannýttan og hverfa smám saman út úr íslensku samfélagi.

Þó verður að viðurkennast sem hæstv. iðnrh. kom inn á í ræðu sinni áðan að einmitt fyrir aðgerðaleysi stjórnvalda, það að stjórnvöld hafa ekki haldið vöku sinni við að láta íslenskan skipasmíðaiðnað njóta samsvarandi viðskiptaumhverfis og aðbúnaðar og skipasmíðaiðnaður í öðrum löndum, hafa þau viljandi eða óviljandi látið hann drabbast niður. Umgjörðin um hann hefur verið miklu lakari en aðrar þjóðir hafa búið sínum skipasmíðaiðnaði. Hæstv. iðnrh. gat þess hér áðan að nú hefði verið sett í gang vinna til að skoða og athuga hvar kreppti að og að hvaða leyti íslenskur skipasmíðaiðnaður væri með skerta samkeppnisstöðu gagnvart erlendum. Það var jú tími til kominn að það væri gert. Betur hefði verið ef til þeirra aðgerða hefði verið gripið fyrir tíu árum eða svo. En því miður báru íslensk stjórnvöld ekki gæfu til að grípa inn í þá.

Það væri ástæða til, herra forseti, að fá upplýsingar hér um. Ef hæstv. iðnrh. væri viðlátinn þætti mér vænt um ef hann gæti veitt mér upplýsingar um fjárhagslega stöðu þeirra skipasmíðastöðva sem enn starfa í landinu. Hversu langa bið þola þessar skipasmíðastöðvar eftir raunverulegum úrbótum í samkeppnisumhverfinu, eins og hæstv. ráðherra var hér að ýja að?

Tillaga okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar lýtur að því að grípa þegar í stað til aðgerða til að styrkja samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja og endurreisa þann iðnað sem nú berst í bökkum og óvíst er að lifi af. Ég held að hér þurfi að grípa strax inn í og þekki til þess að sumar af þessum skipasmíðastöðvum berjast enn í von um að úr rætist en þær eiga takmarkaðan líftíma eftir. Ég óttast að það verði of mikið sleifarlag á aðgerðunum af hálfu hins opinbera til að rétta af samkeppnisstöðuna þannig að þau fyrirtæki sem nú berjast í bökkum hafi ekki þol til að bíða eftir aðgerðunum.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hver er staða þessara skipasmíðastöðva nú? Hversu langa bið þola þær áður en aðgerðirnar sem hæstv. iðnrh. minntist á hér áðan, koma til framkvæmda þannig að þær nýtist?

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að hæstv. iðnrh. er ekki í húsinu.)

Spurningar mínar eru samt bornar fram. Hæstv. iðnrh. getur sjálfsagt svarað þeim með öðrum hætti. Formaður iðnn. er örugglega í húsinu. Hann er kappsamur um málefni iðnaðarins. Ég hygg að hann hljóti að vera í húsinu og fylgist með af kostgæfni því að íslenskur skipasmíðaiðnaður er jú stórmál. Þessi iðnaður hefur verið okkar stóriðja í gegnum áratugina. Hvernig hefði byggð á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austurlandi farið ef ekki hefði verið þar mjög sterk skipasmíðahefð? Einmitt sú þekking sem legið hefur að baki íslenskri skipa- og bátasmíði hér á landi hefur lagt grunninn að þeirri velferð sem við búum að í dag. Ég geri alveg fastlega ráð fyrir því, herra forseti, að hv. formaður iðnn. sé viðlátinn.

(Forseti (HBl): Hann er ekki í húsinu.)

Ég harma, herra forseti, að hv. formaður iðnn., þingmaður Framsfl., hv. þm. Hjálmar Árnason, er ekki í húsinu. Hann er kannski að hlaupa á eftir Landsvirkjun í dag og reyna að rétta hlut sinn með Landsvirkjun. Það er kannski veglegra starf en að fylgjast hér með stórmerku máli, þ.e. endurreisn íslensks skipasmíðaiðnaðar.

Herra forseti. Það er afar brýnt að íslenskur skipasmíðaiðnaður komist á rekspöl og fái samkeppnisumhverfi miðað við samkeppnisstöðu annarra. Við getum ekki miðað okkur við Kína þar sem laun eru með því lægsta sem gerist og aðbúnaður lélegur. Við hljótum að verða að miða okkur við íslenskar og vestrænar aðstæður. Ég ítreka, herra forseti, að endurreisn íslensks skipasmíðaiðnaðar er eitt brýnasta málið fyrir atvinnulífið í landinu.