Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:43:29 (1326)

2002-11-12 16:43:29# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins fáein orð. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þær undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið. Ég vonast til að hv. iðnn. taki málið til skoðunar, fari a.m.k. yfir það hvað Alþingi fyrir sitt leyti og iðnn. geta gert til að fylgja þessum hlutum eftir. Það er ærin ástæða til.

Ég get tekið undir orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar hér áðan, að saga íslensks skipaiðnaðar síðustu 20--30 árin, a.m.k. síðustu 12--15 ár, er saga glataðra tækifæra. Það er satt best að segja með ólíkindum hvernig við höfum glutrað þeim möguleikum niður frá því að hér var blómleg, dafnandi atvinnugrein á áttunda og jafnvel fram á níunda áratug síðustu aldar með umtalsverðum umsvifum sem sköpuðu hér þúsund starfa.

Ég veit að virðulegur forseti okkar skilur þetta ágætlega, þekkjandi sæmilega til mála á Akureyri. Það var ekki lítið sem hrundi í því bæjarfélagi með hruni skipaiðnaðarins sem þar hafði verið mjög blómlegur. Þar voru tvær af stærstu skipasmíðastöðvum landsins starfræktar þegar best lét, Slippstöðin á Akureyri og Skipasmíðastöð Kaupfélags Eyfirðinga, sem smíðaði mörg fræg aflaskip. Það var ekki bara að þau störf töpuðust beint, Slippstöðin var t.d. með vel á fjórða hundrað manns í vinnu og fleiri fyrirtæki þar á Eyrinni störfuðu beint við skipasmíðarnar, heldur voru tugir og hundruð afleiddra starfa í iðnaði í smáfyrirtækjum í ýmsum greinum í þessum mikla iðnaðaarbæ Akureyri sem meira og minna áttu tilvist sína undir umsvifum í skipaiðnaðinum. Þegar allt var lagt saman þá má örugglega færa fyrir því rök að hátt í þúsund störf hafi beint og óbeint tengst umsvifunum í skipaiðnaði í höfuðvígi þess iðnaðar, á Akureyri, þegar best lét.

En svo komu daprir tímar. Ég man ekki nákvæmlega hversu langt niður þetta fór en mig minnir þó að fast mannahald hjá Slippstöðinni hafi farið langt niður fyrir 100 manns þegar verst lét. Það fyrirtæki, eins og mörg önnur, hefur gengið í gegnum miklar hremmingar og í raun ekki bara strandað einu sinni heldur tvisvar ef ekki þrisvar, eins og hér kom einnig fram í umræðunni áðan.

Ég held menn eigi líka, herra forseti, að horfa til þess að þetta er ekki bara atvinnu- og efnahagsspursmál, jafnaugljóst og það er. Þetta er í raun öryggisatriði, þ.e. óumflýjanlegur hluti af því stoðkerfi sjávarútvegsins í landinu sem verður að vera til staðar. Ég leyfi mér að fullyrða að þar sé komið mjög tæpt að fullnægjandi afkastageta og burðir séu til að afstýra gríðarlegu tjóni þegar skip verða fyrir áföllum á hávertíð. Við skulum ímynda okkur að eitt eða fleiri af stóru uppsjávarveiðiskipunum fái á sig brot og verði fyrir skemmdum eða bilunum á hápunkti loðnuvertíðar í febrúar, þegar verðmæti nema milljónatugum í viku hverri. Þá er ekkert lítið í húfi að til staðar séu í landinu afköst og geta til að bregðast skjótt við ef menn þurfa á þjónustu að halda. Þá vilja menn auðvitað að til staðar sé íslenskur skipaiðnaður, mannafli, upptökumannvirki, aðstaða og búnaður til að bregðast við. En er sjálfgefið að svo sé? Nei. Það verður auðvitað ekki nema greininni séu sköpuð einhver starfsskilyrði. Því verður náttúrlega seint trúað að við Íslendingar ætlum áfram að vera sjávarútvegs- og siglingaþjóð og geta ekki veitt a.m.k. lágmarksþjónustu á þessum sviðum.

Lengi háði mönnum efnisleysið, herra forseti, í skipaiðnaði í landinu. Allt frá því fyrir daga Gamla sáttmála var timburleysið versti óvinurinn. Menn höfðu hér í landinu ekki við til að byggja haffær skip nema með harmkvælum þó að bændur á Sléttu drægju að vísu saman rekavið á norðaustanverðu landinu og byggðu haffært skip á 18. öld, ef ég man rétt. Þeir sýndu í verki stórhug sinn og þekkingu og hæfni. Menn byggðu hin ágætustu fley af þeim miklu vanefnum sem þeir bjuggu við. En nú er það ekki það sem okkur háir heldur eru okkur allir vegir færir í þeim efnum hvað varðar aðdrætti. Þekkingin er til staðar. Hana er hægt að byggja upp og hana er hægt að varðveita. En það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum og við getum auðvitað látið þetta koðna áfram niður ef ekkert verður að gert.

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vona að hún verði til að ýta við málinu og þessi tillöguflutningur okkar hér á síðasta þingi og þessu. Til þess er hann í og með ætlaður, að þrýsta á um að eitthvað verði aðhafst í málinu.