Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:32:47 (1332)

2002-11-12 17:32:47# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:32]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki fullyrða neitt um það hvort sú þáltill. sem hv. þm. lagði fram á síðasta þingi hafi orðið hvatinn að því að stofna þessa nefnd. Mér er ekki kunnugt um það. Hins vegar veit ég að ýmsar nefndir hafa verið starfandi á síðustu tíu árum um æskulýðsmál og ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til þess að endurskoða lög um æskulýðsmál. Ég held reyndar að sú nefnd sem ég veiti forstöðu núna sé til komin í framhaldi af því. Ég veit það líka að hæstv. menntmrh. hefur sýnt mikinn áhuga á þessum störfum og vildi leggja sínar línur um að lögð yrði ákveðin vigt í þennan málaflokk.

Hins vegar vil ég líka nefna það að hv. þm. hefði getað sparað sér mörg orð um skipan nefndarinnar, þ.e. að hún væri pólitískt skipuð og þar fram eftir götunum. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp hverjir eru í þessari nefnd. Þeir eru ekki skipaðir pólitískt. Þeir eru ekki skipaðir sem fulltrúar neinna aðila heldur er þetta fólk sem hefur verið skipað eingöngu í krafti reynslu sinnar og þekkingar. En í nefndinni eiga sæti auk mín: Eiríkur Björgvinsson, bæjarstjóri Austur-Héraðs, Helga Guðjónsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Hveragerði og varaformaður UMFÍ, Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla, Margrét Tómasdóttir aðstoðarskátahöfðingi, Vanda Sigurgeirsdóttir, aðjunkt við Kennaraháskóla Íslands, og Þórólfur Þorleifsson, prófessor við Háskóla Íslands, og starfsmaður nefndarinnar dr. Jón Gunnar Bernburg. Þettar er því ekki nefnd sem er skipuð pólitískt heldur skipuð vegna reynslu og þekkingar þessara einstaklinga.

Annan misskilning vildi ég líka aðeins leiðrétta, þ.e. varðandi verksvið nefndarinnar. Hún tekur til starfsemi sveitarfélaga á sviði æskulýðsmála jafnframt því að skoða starfsemi frjálsra félagasamtaka. Því er eingöngu sú starfsemi sem snýr að íþróttafélögum undanskilin og það byggir á hefð sem ríkir hér á landi og í Evrópu, að gera aðskilnað milli íþróttamála og annarra æskulýðsmála. Hver ástæðan er get ég ekki svarað en svona er það.