Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:35:05 (1333)

2002-11-12 17:35:05# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:35]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera samsetningu þessarar nefndar að stóru máli hér. Þetta er valinkunnt sæmdarfólk og ég geri síður en svo neinar athugasemdir við skipan þess. Ég held að það eigi allt fullt erindi inn í þetta starf og ég þekki það vel, enda var ég ekki að láta að því liggja að það sem slíkt væri skipað þarna pólitískt.

En formaður nefndarinnar er einn af þingmönnum Sjálfstfl. Úr því að þingmenn voru settir inn í nefndina á annað borð þá hefði mér þótt fara vel á því að það hefði þá verið breiðari hópur og að hann hefði endurspeglað aðeins fleiri víddir í pólitík en þá einu sem hann gerir, þ.e. hv. þm. Sjálfstfl. Ásta Möller er væntanlega ekki fulltrúi annarra pólitískra sjónarmiða inni í nefndinni en sinna eigin og síns flokks, Sjálfstfl. Það var það sem ég var að tala um. Ég vissi svo sem ekki hvort í nefndinni kynni að vera þingmaður frá hinum stjórnarflokknum. Það hefði verið mjög í anda þess sem gerist nú til dags að svona nefndir eru þannig skipaðar að í þær eru settir þingmenn stjórnarflokkanna og síðan oftast að sjálfsögðu eitthvert valinkunnt fólk sem á fullt erindi inn í viðkomandi starf. Ég óska þessari nefnd velfarnaðar og treysti henni vel til þess að vinna verk sín vel. Ég þekki held ég alla eða a.m.k. flesta sem þarna voru upp taldir og veit að þetta fólk hefur allt sitt fram að færa í starfið. En úr því að stjórnmálamenn eru á annað borð hafðir með þá fyndist mér í svona tilvikum fara vel á því í málaflokkum sem eiga að vera algerlega hafnir yfir allar flokkspólitískar deilur að það væri þá breiðari samsetning á því.