Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:36:48 (1334)

2002-11-12 17:36:48# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekkert fleira sé að segja um skipan nefndarinnar. En ég vildi aðeins taka undir þau sjónarmið sem komu fram bæði í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur varðandi brottfall í æskulýðsstarfi og íþróttastarfi eftir grunnskóla. Brottfallið er ákveðið áhyggjuefni og við tökum eftir því t.d. í viðræðum okkar við fólk úti á landi. Við í nefndinni fórum austur á Hérað og ræddum þar við fulltrúa æskulýðssamtaka og reyndar líka fulltrúa unga fólksins. Þar kom einmitt fram þetta sjónarmið að krakkarnir vildu alls ekki halda áfram að sækja félagsmiðstöðvarnar eftir að þeir væru komnir í framhaldsskóla. Þeir vildu gera ákveðin skil þarna á milli og því var ákveðið brottfall einmitt við þessi skil.

Ég held líka að við þurfum að skoða mun nánar hvernig stuðningur sveitarfélaga við frjáls félagasamtök eigi að vera. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af því ef sveitarfélögin eru farin að taka yfir ákveðna starfsemi sem hingað til hefur verið í sjálfboðaliðsvinnu. Ég nefndi áðan að hver ein króna af opinberu fé sem fer til frjálsra félagasamtaka virðist margfaldast, virðist allt að áttfaldast til tífaldast þannig að því mætti velta fyrir sér hvað mundi verða úr þessum 900 millj. kr. sem sveitarfélögin setja í þennan flokk. Ég er ekki að segja að allt eigi að fara til frjálsra félagasamtaka. En hægt er að velta því fyrir sér hvort það mundi margfaldast áttfalt eða tífalt og hvað það þýði fyrir forvarnastarf í landinu.

En almennt séð held ég að forvarna- og æskulýðsstarf fari ekki eftir neinum pólitískum línum. Þetta er sjálfsagt mál sem allir beita sér fyrir og ég held að sú vinna sem kemur út úr þeirri nefnd sem ég veiti forstöðu leiði ekki til pólítískrar niðurstöðu.