Útsendingar Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 13:39:22 (1337)

2002-11-13 13:39:22# 128. lþ. 29.1 fundur 117. mál: #A útsendingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er reyndar erfitt að vera eins borubrattur og hv. fyrirspyrjandi og ekki víst að ég geti staðist þann samanburð. En fyrsta spurning fyrirspyrjanda er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Er áætlað að bæta móttökuskilyrði Ríkisútvarpsins á Raufarhöfn og Kópaskeri? Sé ekki svo, hyggst ráðherra þá beita sér fyrir því að úr verði bætt?``

Ég hef beitt mér fyrir því að úr þessu verði bætt og við fyrirspurninni, sem var beint til Ríkisútvarpsins, er svarið sem hér segir:

Ríkisútvarpið hefur ákveðið að breyta móttöku í endurvarpi á vitanum á Raufarhöfn þannig að rafmagnstruflanir í sendi á Langanesi hafi ekki áhrif á Raufarhöfn. Þetta verk verður unnið á næstu vikum. Bilunin sem fannst í loftneti sendisins hefur nú verið lagfærð. Á Kópaskeri hefur verið ákveðið að setja upp sendi fyrir sjónvarpið. Gert er ráð fyrir að hann verði kominn upp fyrir jól.

Áformað er að setja sem fyrst upp senda fyrir Rás 1 og Rás 2 á báðum stöðum en tímasetning er háð fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins fyrir næsta ár.

Að því er varðar Raufarhöfn er það svo að starfsmenn Ríkisútvarpsins og Landssímans mældu útsendingar sjónvarpsins á Raufarhöfn og varð niðurstaðan að með góðum móttökubúnaði væri hægt að ná góðri mynd. Athuganir sýndu að í nokkrum húsum voru ekki rétt loftnet eða búnaðurinn lélegur. Útvarpssendingar á Rás 1 og Rás 2 koma frá sendum á Viðarfjalli og kom fram við mælingar að ekki eru kjörskilyrði fyrir FM-viðtöku á ferðatæki en góða viðtöku má fá með útiloftneti. Móttökuskilyrði eru góð fyrir bíla á svæðinu.

Að því er varðar Kópasker er staðan sú að útsendingar útvarps og sjónvarps koma frá sendistöð á Auðbjargarstaðabrekku sem er langt frá bænum. Sendingar fara langan veg yfir sjó sem stundum getur valdið breytingum á móttökuskilyrðum. Nýr sendir fyrir sjónvarpið verður settur upp á þessu ári eins og fram hefur komið.

Síðan er spurt:

,,Telur ráðherra eðlilegt eða sanngjarnt að fólki á þessum stöðum sé gert að greiða fullt afnotagjald þegar móttökuskilyrði bæði hljóðs og myndar eru sem raun ber vitni? Sé ekki svo, hyggst ráðherra þá beita sér fyrir að afnotagjöldin verði lækkuð eða felld niður á þessum svæðum þar til móttökuskilyrði hafa verið bætt?``

Í svari og umsögn Ríkisútvarpsins segir:

Dreifikerfi Ríkisútvarpsins var hannað miðað við alþjóðlega staðla. Kerfið var byggt upp með það fyrir augum að ná til sem flestra með lágmarkstilkostnaði. Ríkisútvarpið heldur því fram að sjónvarpið nái til um 99,8% íbúa landsins og að útvarpið nái til alls landsins. Í sjónvarpi er þessi tala með því hæsta sem þekkist á Vesturlöndum. Engu að síður eru skilyrði mismunandi um landið og notendur þurfa að hafa mismunandi mikið fyrir því að ná sendingum. Þannig hefur það raunar alltaf verið. Kröfur um bætta þjónustu hafa verið að aukast með árunum og hefur verið reynt að mæta þessum kröfum með endurnýjun og styrkingu dreifikerfisins eftir því sem fjárhagslegar aðstæður leyfa. Þetta er m.a. gert með síversnandi stofndreifingu um ljósleiðara.

Ríkisútvarpið telur að móttökuskilyrði á Raufarhöfn og Kópaskeri séu viðunandi. Af niðurstöðum mælinga á Raufarhöfn er hægt að draga þá ályktun að alla jafnan sé hægt að ná góðri sjónvarpsmynd með réttum búnaði og hið sama gildir um útvarpssendingar. Ef fella á niður afnotagjöld verður að vera hægt að sýna fram á að sendingarnar nái ekki til fólks, og það hefur ekki verið gert.

Ríkisútvarpið sýnir fullan vilja til þess að bæta útsendingar á þeim stöðum sem hér um ræðir og því virðist ekki efni til aðgerða af hálfu ráðuneytisins í þessum málum. Ég vil taka það fram að Ríkisútvarpið hefur tekið þá ákvörðun að gefa afslátt eða fella niður afnotagjald á þeim bæjum þar sem ástandið er verst.

Síðan er spurt í þriðja lagi:

,,Eru fleiri staðir á landinu þar sem móttökuskilyrði Ríkisútvarpsins eru þannig að óviðunandi megi teljast?``

Svar: Ríkisútvarpið telur að 80 sveitabæir búi við léleg eða engin skilyrði til að ná útsendingum sjónvarps og útvarps og að kostnaður við úrbætur sé áætlaður um 240 millj. kr. Á verkefnalista Ríkisútvarpsins er styrking útsenda útvarps eða sjónvarps í stærri sveitarfélögum eða byggðakjörnum með nýjum sendistöðvum. Meðal þessara staða eru t.d. Akranes og Grenivík.

Ég endurtek að Ríkisútvarpið hefur tekið það upp hjá sjálfu sér að veita afslátt eða fella niður afnotagjöld hjá þeim sem búa við verstu skilyrðin.