Húsnæðismál Tækniháskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 13:56:15 (1344)

2002-11-13 13:56:15# 128. lþ. 29.2 fundur 220. mál: #A húsnæðismál Tækniháskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[13:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mér þykir miður að hæstv. ráðherra taki ekki vel í það að koma með nýtt húsnæði fyrir Tækniháskólann. Það er alveg ljóst að það húsnæði sem háskólinn er í núna er allsendis óviðunandi. Þetta er iðnaðarhúsnæði með gluggalausu rými að stórum hluta. Eigendur hafa ekki sinnt viðhaldi þar sem þetta er leiguhúsnæði. Það er ekki hægt að læsa útidyrum. Gluggar og veggir leka og það er ekki hægt að segja upp húsnæðinu fyrr en 2014 eins og kom fram nema háskólinn fari í eigið húsnæði.

Það segir sig sjálft að tækniháskóli gerir ráð fyrir kennslu í tæknigreinum. Til þess þarf hann að vera tæknivæddur en húsnæðið er ekki hannað til þess að tæknivæðast. Rafkerfið t.d. þolir ekki fartölvuvæðingu og skólinn þarf að fara í milljónaframkvæmdir til að koma slíku ástandi á. Það þarf að endurnýja rafkerfið, tölvulagnirnar, skolpkerfið, lagnakerfið, það þarf að mála, laga leka o.s.frv. Það er því verulega margt sem þarf að gera og ég trúi ekki öðru en að tekið verði á því og skólinn fái nýtt húsnæði.