Dreifmenntun í Vesturbyggð

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:10:55 (1352)

2002-11-13 14:10:55# 128. lþ. 29.4 fundur 267. mál: #A dreifmenntun í Vesturbyggð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu um uppbyggingu dreifmenntunar í Vesturbyggð. Menntmrn. hefur hafið undirbúning að verkefni um dreifmenntun á grunnskólastigi í samvinnu við sveitarstjórnir í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Dreifmenntun felur í sér að nemendur geta haft aðgang að námsframboði í fleiri en einum skóla og þar með stundað nám án þess að vera bundnir við einn stað. Kennslan er hvort tveggja staðbundin kennsla og fjarkennsla eða dreifkennsla og munu kennarar geta stundað kennslu við fleiri en einn skóla í senn.

Markmiðið með þessu verkefni er að endurskoða skólastarf með hliðsjón af dreifmenntun, að finna leiðir til að draga úr kostnaði vegna skólahalds með auknu samstarfi á milli skóla, auka gæði og fjölbreytni námsins með samnýtingu á kennurum skólanna, efla færni nemenda til að nýta upplýsinga- og samskiptatækni til fjarvinnslu og samskipta og stuðla að því að nemendur geti stundað nám í heimabyggð allt frá leikskóla til loka háskólanáms og einnig starfsnáms og auka líkur á að nemendur kjósi að búa í heimabyggð eftir að námi lýkur. Þannig eru markmiðin með þessu verkefni fjölmörg og öll í anda þess sem hv. þm. nefndi áðan að væri mikilvægt, og það er líka gleðilegt að vita til þess að Byggðastofnun hafi lagt áherslu á þessi atriði í stefnuskrá sinni og starfsemi því að sennilega eru menntamálin með mikilvægustu byggðamálum í landinu.

Ætlunin er að framangreint verkefni geti orðið fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög um nýtingu upplýsingatækni til samkennslu milli skóla. Verkefnið felur í sér þjálfun starfsfólks og nemenda í að nýta sér nýtt kennslu- og námsumhverfi og nýja tækni, uppbyggingu viðeigandi tækjabúnaðar ásamt skipulagsvinnu. Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið hefur í fjárlagatillögum lagt til að þetta verkefni verði styrkt um 9 millj. kr. á árinu 2003. Menntmrn. vinnur að frekari fjármögnun á þessu verkefni.

Ég vil í lokin geta þess að dreifmenntun/fjarkennsla er eitt af því sem Íslendingar hafa byggt upp mjög hratt á Íslandi og hefur orðið til þess að breyta í verulegum atriðum, í grundvallaratriðum má segja, menntunaraðstöðu fólks í hinum dreifðu byggðum. Þessi vöxtur hefur verið svo mikill að ef við lítum sérstaklega til framhaldsskólanna, þá voru nemendur sem þar stunduðu nám 1999 337, en árið 2002 eru liðlega 2 þús. nemendur sem stunda fjarnám á framhaldsskólastigi. Þetta sýnir hversu mikil þörfin hefur verið og hversu fljótt hefur tekist að svara þeirri þörf. Ég held því að ekki sé neinum vafa undirorpið að dreifmenntunin og fjarkennslan eru verkfæri sem við eigum eftir að nota okkur í stórum stíl til að bæta aðgengi landsmanna að menntun.