Fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:17:15 (1356)

2002-11-13 14:17:15# 128. lþ. 29.5 fundur 273. mál: #A fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Þegar ung manneskja lýkur námi vekur það væntanlega fögnuð. Námsmaðurinn tekur við prófskírteini sínu sem tákni þess að hann hafi tileinkað sér lágmarksfærni. Í mörgum tilvikum veitir skírteinið honum ákveðin réttindi til starfa. En nemandinn með nýja skírteinið hefur enga tryggingu fyrir störfum á sínu sviði. Við tekur hin harða lífsbarátta þar sem einstaklingurinn leitar sér að starfi og þar gegnir prófskírteinið lykilhlutverki. Þetta er hin almenna regla.

En svo einkennilega sem það hljómar þá á reglan ekki við um fimm greinar í háskólum landsins: læknisfræði, hjúkrunarfræði, tannlækningar, sjúkraþjálfun og lögfræði. Í þessum greinum gilda svokallaðar fjöldatakmarkanir. Í raun má segja að það sé með ólíkindum að í upphafi 21. aldar skuli íslenskir háskólar enn halda uppi fyrirkomulagi sem líklega á rætur sínar í danskri nýlenduskömmtum. Spyrja má: Hvers vegna eiga fjöldatakmarkanir í þessum fimm námsdeildum háskólans við þar en ekki í öðrum? Hvers vegna ekki í heimspekideild, verkfræðideild, félagsvísindadeild og þannig má áfram telja.

Getur verið að með fjöldatakmörkunum sé viðkomandi stétt að skammta sjálfum sér aðeins brýnustu nýliðun? Ég spyr þar sem ég sé engin skynsamleg rök fyrir þessu úrelta fyrirkomulagi. Hverjar skyldu nú vera afleiðingar þessa? Ég nefni fyrst þá hörmung og niðurbrot sem hið skammtandi kerfi leiðir yfir nemendur, jafnvel mjög dugandi nemendur. Þetta er sóun á mannauði. Ég nefni einnig að þetta skammtakerfi leiðir til skorts á starfsfólki, t.d. í hjúkrun og læknisfræði. Ég fullyrði einnig að með þessari skömmtun dragi úr samkeppni innan greinarinnar. Þar sem skortur er á nýliðun verður eðli málsins samkvæmt lítil innbyrðis samkeppni.

Herra forseti. Sá sem lendir neðan við hin alræmdu mörk fjöldatakmarkana fellur einfaldlega, ekki vegna þess að hann kunni ekki fagið heldur vegna þess að hann var ekki í hópi þeirra allra bestu. Fjölmargir læknar og hjúkrunarfræðingar sem nú eru starfandi hafa þurft að fara oftar en einu sinni í gegnum fyrsta ár í háskóla en lokið því um síðir og reynst prýðilegir starfsmenn. Ég tel þetta kerfi ekki í samræmi við þær kröfur og tíðaranda sem ríkir og spyr því hæstv. menntmrh. hvort hann telji ekki tímabært að beita sér fyrir afnámi þeirrar tímaskekkju sem fjöldatakmörkun á háskólastigi er.