Fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:22:22 (1358)

2002-11-13 14:22:22# 128. lþ. 29.5 fundur 273. mál: #A fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég tel að þegar Háskóli Íslands þarf að taka ákvörðun um forgangsröðun þurfi stjórnvöld einnig að hafa þar puttana í vegna þess að stjórnvöld þurfa að skoða þörfina í þjóðfélaginu fyrir hverja stétt fyrir sig. Í þessu tilviki langar mig að benda á að fjöldatakmarkanir í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands miðast við 65 nemendur. Það komast einungis 65 nemendur áfram í námi eftir fyrstu önn.

Síðastliðið vor fór fram átak til að kynna hjúkrunarnám sem áhugaverðan valkost fyrir unga stúdenta. Árangurinn lét ekki á sér standa. Það eru 150 nemendur eða helmingi fleiri en fyrir ári síðan sem skráðu sig til náms í hjúkrunarfræði. Nú standa þessir nemendur frammi fyrir því að einungis 65 komast áfram nema fjöldatakmörkunum verði aflétt. Ég tel að það verði að skoða þetta mál mjög nákvæmlega. Það þarf að aflétta fjöldatakmörkunum í þessu tiltekna námi og auka fjármagn til að hægt sé að koma til móts við aukna þörf fyrir hjúkrunarfræðinga í samfélaginu, bæði nú og til framtíðar.