Fjarnám í fámennum byggðum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:28:54 (1362)

2002-11-13 14:28:54# 128. lþ. 29.6 fundur 274. mál: #A fjarnám í fámennum byggðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Þó að mig og hæstv. menntmrh. kunni að greina á um málið sem var hér síðast á dagskrá hygg ég að við séum mjög sammála um að menntun sé undirstaða allra framfara. Hinar ótrúlegu framfarir og sú hagsæld sem orðið hafa hér á síðustu 100 árum grundvallast á þeirri staðreynd að þjóðin fjárfesti í menntun. Hærra menntastig þjóðarinnar hefur þannig skilað aukinni hagsæld og traustum efnahag. Um það ríkir almennt sátt meðal þjóðarinnar að mismuna þegnum sínum ekki hvað varðar aðgengi að menntun. Í því skyni höfum við m.a. komið okkur upp einstöku kerfi, öflugum skólum, Lánasjóði ísl. námsmanna, dreifbýlisstyrkjum námsfólks í framhaldsskólum og þannig má áfram telja.

Á síðustu árum hefur fjarnám orðið æ algengara í menntun. Segja má að tilkoma þess hafi valdið byltingu í námsmöguleikum margra, ekki síst fólks í dreifbýli, sjómönnum og öðrum hópum. Að mörgu leyti fór Verkmenntaskólinn á Akureyri í fararbroddi við að innleiða fjarnám hérlendis, a.m.k. á framhaldsskólastigi. Háskólinn á Akureyri fylgdi því síðan eftir á háskólastiginu. Aðrir skólar hafa svo blessunarlega komið í kjölfarið með þeim afleiðingum að hundruð ef ekki þúsundir einstaklinga stunda nú margbreytilegt nám sem þeir ella hefðu ekki átt kost á að stunda vegna búsetu eða starfa.

Nú hefur hins vegar komið í ljós annmarki á þessari skipan sem e.t.v. er eðlilegur því að þróunin hefur verið nokkuð hröð. Fjarnámsfyrirkomulagið er frábært svo langt sem það nær. Vandinn er hins vegar sá að í mörgum tilvikum þurfa nemendur að safnast á tilteknum stöðum á tilteknum tíma þar sem fjarfundabúnaður er fyrir hendi. Þetta er í rauninni hið besta mál. Hins vegar hefur komið í ljós að íbúar hinna dreifðustu byggða eiga ekki sömu möguleika og aðrir. Þeir þurfa að ferðast um langan veg sem dregur úr möguleikum þeirra til að sækja markvisst fjarnám. Segja má að þannig sé að þróast mismunun milli íbúa landsins hvað búsetu varðar. Ég tel brýnt, út frá grundvallarhugsun um jafnan aðgang þegnanna að námi, að úr þessu verði bætt. Því spyr ég hæstv. menntmrh. hvaða möguleika hann sjái til að bæta aðgengi íbúa dreifðustu byggða að fjarnámi.