Fjarnám í fámennum byggðum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:31:41 (1363)

2002-11-13 14:31:41# 128. lþ. 29.6 fundur 274. mál: #A fjarnám í fámennum byggðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Menntmrn. beitir sér nú fyrir ýmsum verkefnum sem styðja við fjarnám í fámennum byggðum. Ráðuneytið hefur staðið fyrir útboði á háhraðaneti fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar, svokallað FS-net, en FS-net mun tengja saman framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar á 40 stöðum á landinu. FS-netið mun gjörbreyta aðstöðu íbúa fámennra staða til að stunda fjarnám þar sem fyrir hendi verður háhraðatenging og þar með greiður aðgangur að fjarkennslu með fjarfundum og internetinu. FS-netið mun ná til yfir 30 fámennra byggðarlaga þar sem eru útibú símenntunarstöðva og fjarfundabúnaður. Stefnt er að því að netið verði tekið í notkun um næstu áramót.

Á framhaldsskólastigi fer framboð á fjarnámi ört vaxandi. Menntmrn. hefur unnið að því í samvinnu við framhaldsskóla að skapa skipulagslegar og tæknilegar forsendur fyrir fjarnámi. Sem dæmi má nefna að fjarnemum við Fjölbrautaskólann við Ármúla hefur á örskömmum tíma fjölgað svo að nú stunda yfir 1.000 nemendur fjarnám við skólann. Fjölbrautaskólinn við Ármúla tók þátt í fjögurra ára verkefni með ráðuneytinu sem þróunarskóli í upplýsingatækni. Alls bjóða nú 17 framhaldsskólar fjarnám og verður unnið að framþróun þess.

Í Grundarfirði hafa nemendur stundað framhaldsskólanám með fjarfundasniði en jafnframt fengið stuðning í heimabyggð. Menntmrn. hefur stutt þessa tilraun sem nú hefur fest sig í sessi og er að kanna möguleika á útfærslu þessa fyrirkomulags til annarra fámennra byggða.

Unnið hefur verið að því að auka framboð á fjarkennslu á öllum skólastigum. Á grunnskólastigi er menntmrn. að vinna með sveitarfélögum í Vesturbyggð og á Tálknafirði, eins og hér hefur komið fram, að uppbyggingu fjarkennslu milli fámennra skóla. Þar verður fjarfundabúnaður og önnur upplýsingatækni nýtt til þess að miðla kennslu milli skóla þannig að kennarar geti unnið við fleiri en einn skóla í senn. Ætlunin er að miðla reynslu af þessu tilraunaverkefni til fleiri sveitarfélaga og stuðla þannig að aukinni fjarkennslu í grunnskólum.

Á háskólastigi hafa flestir skólar boðið fjarnám sem nýtist vel fámennum byggðum. Menntmrh. hefur skipað vinnuhóp um háskólanámssetur á Austurlandi en þar er lögð áhersla á þjónustu við fámennar byggðir vegna háskólanáms. Verið er að skoða útfærslu slíks fyrirkomulags fyrir fleiri byggðarlög.

Menntmrn. vinnur nú að undirbúningi netháskóla eða eins og hann heitir á ensku ,,Virtual University``, en gert er ráð fyrir því að allir háskólar á landinu taki þátt í þessu samstarfi um netháskóla. Með netháskóla er áhersla lögð á að auka námsframboð og koma til móts við auknar kröfur um símenntun á háskólastigi. Síðast en ekki síst er netháskólum ætlað að styðja við nemendur í dreifbýli og styðja við svæðisbundna þróun.

Það er rétt að það komi fram hér í lokin að stærsti farvegur fyrir dreifmenntun á framhaldsskólastigi hefur raunar verið netið og þar er nánast um eins konar einstaklingsbundna þjónustu að ræða í gegnum netið sem hefur reynst mjög vel. Fjarfundabúnaður hefur meira verið notaður á háskólastigi þar sem fyrirlestrum er í raun varpað í gegnum samskiptakerfið og þá þarfnast það allmikillar burðargetu. Það er ekki svo að með þessari tækni geti menn nálgast einstaklinga þar sem þeir eiga heima. Svo langt hefur tæknin ekki komist enn þá. Hitt er svo annað mál að sú aðstaða með háhraðaneti sem nú er verið að koma upp og samið er nú um mun stórbæta aðstöðu nemenda í hinum dreifðu byggðum til þess einmitt að tengjast menntastöðvunum, símenntunarmiðstöðvunum, framhaldsskólunum og háskólunum, og það mun að mínu mati valda straumhvörfum í þessari uppbyggingu.