Aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:55:02 (1374)

2002-11-13 14:55:02# 128. lþ. 29.7 fundur 82. mál: #A aðbúnaður og öryggi á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi vill fá skýrari orð um það hvað gera þurfi til þess að herða á ákvæðum um að virða hvíldartímaákvæðin. Það kom fram í svari mínu að ég hef beint skriflega til forsvarsmanna spítalanna þeim tilmælum að vaktir séu skipulagðar með það fyrir augum að þessi ákvæði séu virt og ég mun að sjálfsögðu fylgjast með því hvernig það starf gengur. Það tekur vafalaust tíma að breyta um vinnufyrirkomulag á spítölunum, það er nú nær eingöngu Landspítalinn -- háskólasjúkrahús sem þarna á hlut að máli, þyngslin í þessu eru langmest þar. En eins og ég sagði er verið að vinna að þessu máli.

Í öðru lagi, nefndin sem skipuð var til að skilgreina hverjir væru læknar í starfsnámi. Sú nefnd hefur unnið vel að undanförnu og er u.þ.b. að ljúka störfum og ég hef trú á því að það verði innan tíðar, án þess að ég hafi endanlega dagsetningu í því, en það starf hefur verið unnið snarplega að undanförnu.

Ég endurtek það sem ég sagði og ég taldi mig hafa talað skýrt í því að ég tel að vinnuverndarákvæði eigi að virða í starfsemi spítalanna. Ég hef í rauninni engu við það að bæta. Það er mín eindregna skoðun að gildandi vinnuverndarákvæði eigi að gilda yfir heilbrigðisstarfsfólk, það sé ekki eðlilegt að það sé undanþegið þeim ákvæðum og ekki eðlilegt út frá öryggis- og heilbrigðissjónarmiði.