Gjaldskrá tannlæknaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:00:01 (1376)

2002-11-13 15:00:01# 128. lþ. 29.8 fundur 124. mál: #A gjaldskrá tannlæknaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og fram kom var fimmtudaginn 6. nóv. sl. undirritaður samskiptasamningur milli samninganefnda heilbr.- og trmrn., fyrir hönd Tryggingastofnunar ríkisins, og Tannlæknafélags Íslands. Þá hafði ekki verið samningur í gildi milli þessara aðila í rúm fjögur ár. Það var því í raun mikill áfangi fyrir alla hlutaðeigandi, heilbrigðisyfirvöld, tannlækna og síðast en ekki síst fyrir sjúklinga, að samningar tókust aftur milli þessara aðila.

Fylgiskjöl með samningi þessum eru ný gjaldskrá ráðherra sem kveður á um upphæðir endurgreiðslna til sjúklinga fyrir hvert tiltekið viðvik tannlæknis og svo skýringar með gjaldskránni, sem kveða á um túlkun á einstökum gjaldliðum og beitingu þeirra af hálfu tannlækna.

Í samningnum er staðfest að verðlagning tannlækna er frjáls. Hver tannlæknir er í samkeppnisumhverfi og verðleggur sína þjónustu eftir eigin höfði. Það er því mjög nauðsynlegt fyrir sjúklinga að átta sig á því að þjónusta tannlækna getur þess vegna verið mismunandi, sumir dýrir og aðrir ódýrari.

Endurgreiðsla Tryggingastofnunar er hins vegar ætíð hin sama á sömu læknisverkum. Sjúklingar ættu því að kynna sér hvaða kostnaður geti legið fyrir, áður en þeir láta gera við tennur sínar, og gera það hjá fleiri tannlæknum en einum, því eins og fyrr segir getur sama þjónusta verið á mismunandi verði hjá mismunandi tannlæknum.

Skv. 5. gr. samningsins er enda gert ráð fyrir því að það tilheyri skyldum tannlæknis að veita sjúklingi upplýsingar um kostnað meðferðar í heild svo og að sjúklingi sé gerð grein fyrir eigin kostnaðarþætti áður en meðferð fer fram, þ.e. þeim hlut kostnaðarins sem fellur í hlut sjúklings og Tryggingastofnun greiðir ekki.

Gert er ráð fyrir því í 9. gr. samningsins að í móttöku eða á biðstofu tannlæknis skuli liggja frammi útdráttur með helstu atriðum úr gjaldskrá hans ásamt gjaldskrá heilbrigðisráðherra almenningi til kynningar. Þannig er komið til móts við sjúklinga til að þeir geti kynnt sér á eigin spýtur hver kostnaður sé við hvern gjaldlið þótt fagþekking tannlæknis þurfi að koma til til að áætla heildarkostnað.

Tannlæknar hafa í hendi sér að velja hvort þeir krefja sjúkling að fullu um greiðslu fyrir unnin verk eða hvort þeir innheimta aðeins sjúklingahlutann hjá sjúklingi og sækja endurgreiðsluna til Tryggingastofnunar. Ef sjúklingar eru krafðir um fulla greiðslu hjá tannlækni þá sækja þeir að sjálfsögðu til Tryggingastofnunar endurgreiðsluhlut sinn í kostnaðinum.

Samstarfssamningurinn er að því leyti tímamótasamningur að hann kemur aftur á eðlilegum samskiptum heilbrigðisyfirvalda og fagfélags tannlækna, Tannlæknafélags Íslands, sem felast m.a. annars í því að öll álita- og ágreiningsmál eru lögð fyrir samstarfsnefnd aðila og geta báðir aðilar, þ.e. Tryggingastofnun og einstakir tannlæknar og enn fremur allir sjúklingar, skotið álitamálum til samstarfsnefndar og fengið úrlausn mála sinna. Sjúklingar hafa svo á hverjum tíma möguleika á að fá frekari niðurstöðu í málum sínum og snúa sér til úskurðarnefndar almannatrygginga ef þeim sýnist svo.

Herra forseti. Ég fagna því að aftur sé komið á eðlilegum samskiptum við þennan mikilvæga þátt þjónustunnar og vona að það verði bæði sjúklingum til góða og framfaraspor í heilbrigðismálum okkar Íslendinga.

Eins og fram hefur komið tekur samskiptasamningur Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands gildi 1. des. nk. Gjaldskrá ráðherra, sem segir til um endurgreiðslur til sjúklinga og hækkar flesta endurgreiðslugjaldliði um allt að 22%, tekur hins vegar ekki gildi fyrr en 1. janúar 2003.