Gjaldskrá tannlæknaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:05:21 (1378)

2002-11-13 15:05:21# 128. lþ. 29.8 fundur 124. mál: #A gjaldskrá tannlæknaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Gjaldskrá tannlækna á hinum opna markaði er frjáls. En gjaldskrá tannlækna gagnvart Tryggingastofnun ríkisins er bundin og því ber að fagna að náðst hafi samningar á milli Tryggingastofnunar og tannlækna og heilbrrn. þannig að betra lag komist á endurgreiðslur til sjúklinga.

Herra forseti. Því miður tel ég að bæta þurfi enn um betur. Það er engin afturvirkni í þessum samningi og eldri borgarar munu ekki fá endurgreitt, ef ég hef tekið rétt eftir.

Það er mjög mikilvægt að nýsamþykkt gjaldskrá TR og tannlækna fylgi verðlagshækkunum. Það gerði sú fyrri ekki sem nú er fallin úr gildi, en umtalsverðar fjárhæðir hafa fallið á fjölskyldur vegna þessa.