Gjaldskrá tannlæknaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:08:35 (1380)

2002-11-13 15:08:35# 128. lþ. 29.8 fundur 124. mál: #A gjaldskrá tannlæknaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Þrátt fyrir þær hækkanir sem verða á þátttöku ríkisins í tannlæknakostnaði leyfir fjárhagsrammi heilbrrn. ekki að farið sé aftur í tímann með endurgreiðslu. Fjárhagsrammi heilbrrn. er líka þannig vaxinn að við verðum að forgangsraða varðandi þátttöku okkar í þessum kostnaði.

Ég hjó eftir því að hv. fyrirspyrjandi sagði að ríkið hefði trassað samningagerð í fjögur ár. Ég veit það að þann tíma síðan ég tók við í heilbrrn. hafa samningafundir ekki verið trassaðir af hendi ráðuneytisins og ég efast ekki um að svo var heldur ekki áður. Þetta voru mjög erfiðir samningar og þeir hafa verið það í gegnum tíðina. En sú forusta sem er í Tannlæknafélaginu núna hafði vilja til þess að semja þannig að samningar tókust um síðir. Því ber að fagna. Ég hef m.a. átt persónulegar viðræður við forustumenn tannlækna oftar en einu sinni vegna þessa máls sem var ekki einfalt.

Varðandi gjaldskrána þá eru helstu nýmæli reglugerðarinnar sem verður gefin út 1. des. næstkomandi sú að gefin er heimild til greiðslu implanta, eða ígræði, til lífeyrisþega þegar um gómasmíði er að ræða og svo til greiðslu fyrir plantagóma, sem á implantana koma. --- Þið fyrirgefið þetta tæknilega orðalag. --- Þetta á bæði við um efri og neðri góm. Þá verður samþykkt að endurgreiða 80% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá ráðherra af alvarlegum tannskemmdum. (Forseti hringir.) Enn fremur verða endurgreiðslur hækkaðar í 95% af gjaldskrá ráðherra þegar um er að ræða skarð í vör eða gómi sem leiða til tannskekkju.