Samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:22:30 (1385)

2002-11-13 15:22:30# 128. lþ. 29.20 fundur 333. mál: #A samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Vissulega eru stöðugt settar fram kröfur um lægra vöruverð, sérstaklega á matvöru. Sú umræða hefur verið hávær. En menn vilja standa vörð um íslenska kúabændur og mjólkurframleiðslu. Ég tel ekki að umræðan um aðild að Evrópusambandinu og innflutning frá Evrópu á vöru sem hugsanlega væri ódýrari muni standa vörð um íslenska mjólkurframleiðslu.

Svo lengi sem við stöndum utan Evrópusambandsins getum við staðið vörð um íslenskan landbúnað og það gerum við í dag. Við eigum sömuleiðis að standa vörð um íslensku mjólkurkúna og þá mjólkurframleiðslu sem við höfum í dag. Það eru margar vísbendingar um að við séum þar með alveg einstaka afurð. Við eigum að nýta þá afurð. Við eigum að framleiða nýjar vörur og finna þeim markað og fara inn á ný svið. Við eigum að einhenda okkur í lífræna og vistvæna framleiðslu og fara einnig inn á þann markað.