Samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:29:24 (1390)

2002-11-13 15:29:24# 128. lþ. 29.20 fundur 333. mál: #A samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði að það skipti ekki sköpum hvort við færum í Evrópusambandið eða ekki, við mundum sigra á gæðunum. Þetta er fullyrðing sem margir hafa í frammi. En það gæti samt sem áður, án þess að menn skoði málið, þýtt endalok íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Niðurstöður segja í dag að mjólkurframleiðslan færi verst allra greina út úr því. Hún er þó hryggurinn í íslenskum landbúnaði. Þá kæmi vöruflóðið. Innflutningsvaldið mundi flytja inn og rústa íslenskum landbúnaði.

Svona fullyrðingar ganga ekki upp. Samningur tryggir ekki neitt í sjálfu sér. Það er metnaður stéttar, framsýni og vilji og öruggar og sterkar afurðastöðvar til að fullvinna vöruna og koma til neytenda sem eru tryggingin. Það þarf að huga að mörgu.

Ljóst er að það er ekki bara smásöluverslunin sem ræður í því stríði sem nú er á kjötframleiðslunni. Mig minnir að í Biblíunni standi að þrýstingur á mjólk þýði smjörfjall, að þrýstingur á nasir þýði blóð og að framleiðsla á kjöti þýði kjötfjall. Þess vegna er það svo að þeir sem með peningum hafa sett í gang stríð, í gegnum svínarækt og kjúklingarækt, bera miklu meiri ábyrgð á því ástandi sem er á kjötmarkaðnum en smásöluverslunin. Þeir fara fram með tilboð sem ég veit ekki hver borgar. Neytandinn græðir á því tímabundið en það ruglar markaðinn. Það er því mjög mikilvægt fyrir landbúnað að starfsskilyrðin séu klár. Mikilvægast fyrir landbúnaðinn er að sjá til langs tíma og hafa samstöðu og verklag í lagi til langrar framtíðar.

Það er ekki einfalt að gera íslenskan landbúnað lífrænan. Það er dýrt og það mundi hækka vöruverðið. Við eigum að þjóna þeim markaði sem hér er fyrir. Neytandinn gerir sér grein fyrir því að íslenskar afurðir eru góðar. Þær eru vistvænar og þess vegna er það stefna mín, hæstv. forseti, að reyna að skoða virkilega hvort íslenskur landbúnaður í heild, með öll sín gæði og fjölskyldubú, geti ekki orðið vistvænn á veraldarvísu.