Samgöngur milli lands og Vestmannaeyja

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:40:24 (1393)

2002-11-13 15:40:24# 128. lþ. 29.9 fundur 98. mál: #A samgöngur milli lands og Vestmannaeyja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli svo og hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Sjóleiðin er og verður aðalsamgönguæðin milli lands og Vestmananeyja. Það er þeirra þjóðvegur. Og líka er rétt að draga það fram að þetta er einn af fáum gjaldskyldum þjóðvegum fyrir íbúa Vestmannaeyja og aðra sem vilja leggja leið sína til Vestmannaeyja. Herjólfur er u.þ.b. þrjá tíma að sigla á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Ljóst er að það er ekki í samræmi við nútímakröfur. Þurfum við ekki annað en líta til nágrannalanda okkar, meira að segja smáríkisins Færeyja, þar sem ferjukostur er mun betri en við þekkjum orðið hér á landi.

Eftir 11. september hefur það gerst að mjög margar ferjur, hraðskreiðar ferjur eru nú falar, sem gætu stytt þessa siglingu allverulega og fært til nútímans. En tíminn vinnur gegn okkur. Það er ekki víst hversu lengi þessar ferjur, nútímaferjur verða lausar. Ég vil því hvetja ráðherra til þess að senda strax leiðangur til að kynna sér hvort ekki sé til fýsilegur kostur fyrir Vestmanneyinga á þessum markaði, enda er það í samræmi við vilja borgarafundar og undirskriftalista Vestmanneyinga.