Samgöngur milli lands og Vestmannaeyja

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:44:20 (1396)

2002-11-13 15:44:20# 128. lþ. 29.9 fundur 98. mál: #A samgöngur milli lands og Vestmannaeyja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Margbúið er að ræða þetta mál hér á þingi og það er aldrei of oft gert að sjálfsögðu að ræða nauðsynjamál fyrir Vestmanneyinga.

Komið hefur fram á fundum í Eyjum krafa frá íbúunum um bættar samgöngur og ég held að allir geti tekið undir það að nauðsynlegt er að bæta samgöngur með Herjólfi, sem er þjóðvegur milli lands og Eyja. Ég held að rétt sé að undirstrika það af sem flestum að Herjólfur er þjóðvegurinn milli lands og Eyja.

Það á að vera auðvelt fyrir fjölskyldur í Vestmannaeyjum að komast á milli og þá er ég ekki síst að hugsa um fjárhagslega auðvelt fyrir fjölskyldur að komast á milli. Það á líka að vera auðvelt fyrir samkeppnisiðnaðinn í Eyjum að geta keppt á jafnréttisgrundvelli á landi við útboð og vinnu og byggja þannig upp samkeppni milli iðnaðar, hvort sem hann á heima í Vestmannaeyjum eða í landi. Tvær ferðir á dag er í raun skilyrði í dag. Við getum ekki, herra forseti, eingöngu horft á krónur og aura í þessu sambandi.