Samgöngur milli lands og Vestmannaeyja

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:45:40 (1397)

2002-11-13 15:45:40# 128. lþ. 29.9 fundur 98. mál: #A samgöngur milli lands og Vestmannaeyja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka það svar sem ég fékk við þessari fyrirspurn og mjög góðar undirtektir þeirra hv. þm. sem tjáðu sig um málið. Hér er um mjög margar tölur að ræða enda valdi hæstv. samgrh. að vera með enn þá ítarlegra svar en ég bað raunverulega um. Ég veit að það er á margan hátt erfitt að átta sig á þessum tölum en þó getum við glöggvað okkur á þessu. Þær bera það með sér að t.d. á síðustu tveimur árum hefur farþegum sem hafa flogið milli lands og Eyja fækkað gríðarlega. Árið 2000 voru farþegar um 84.000 en 2001 57.000 þannig að þetta eru augljósar vísbendingar um fækkun.

Við sjáum líka mjög jákvæða þróun hvað varðar Bakka. Árið 1995 voru um 3.400 farþegar sem flugu að Bakka en 2001 19.260 miðað við þær tölur sem hér komu fram. Þetta eru ákveðnar vísbendingar sem sýna okkur að hinn almenni borgari hefur vart ráð á því að fljúga frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Þess vegna hljótum við að þurfa að skoða möguleika á niðurgreiðslu á flugi á þessari flugleið. Það er í raun og veru ekkert athugavert við það.

Það er líka auðvitað jákvætt að ferðum Herjólfs hefur fjölgað. Vissulega er það rétt eins og fram hefur komið að Herjólfur er í raun og veru þjóðvegur milli lands og Eyja. Það skip er að gerast eilítið gamalt, það er um 10 ára, og í augnablikinu er t.d. önnur af aðalvélum skipsins biluð sem sýnir okkur að skipið slitnar smátt og smátt. Okkur ber að tryggja greiðar og góðar samgöngur milli lands og Eyja.