Sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:50:25 (1399)

2002-11-13 15:50:25# 128. lþ. 29.10 fundur 123. mál: #A sjálfbær ferðamennska og umhverfisvernd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Vorið 1996 kynnti samgrn. stefnumótun stjórnvalda í ferðaþjónustu. Í því plaggi kom fram nauðsyn þess að efla ferðaþjónustu í anda sjálfbærrar þróunar og sett var fram það markmið að Ísland gegndi forustuhlutverki á sviði umhverfisverndar. Einnig að stuðla bæri að fræðslu um umgengni við náttúru landsins, hvetja til aukinnar ábyrgðar og umhverfisvitundar ferðamanna, skipuleggjenda og þjónustuaðila í ferðaþjónustu.

Í framhaldi af þessu var, að frumkvæði hæstv. samgrh., unnin metnaðarfull framkvæmdaáætlun um sjálfbæra ferðamennsku og umhverfisvernd. Þessi framkvæmdaáætlun var birt í janúar 1998 og þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Ferðaþjónusta í anda sjálfbærrar þróunar verði efld, þannig að hér á landi verði rekin ferðamennska í sátt við land og þjóð, og að Ísland nái sérstöðu á sviði umhverfismála. Ferðamennska verði nýtt sem afl til verndunar auðlinda og viðhalds náttúrulegs umhverfis.``

Í niðurlagi framkvæmdaáætlunarinnar, sem ég tel ástæðu til að ítreka að er unnin að frumkvæði samgrh. í þessari hæstv. ríkisstjórn, segir:

,,Í ört vaxandi samkeppni í alþjóðlegri ferðaþjónustu er haldgott að hafa sérstöðu, skara fram úr og ná þar með athygli fjöldans. Þessa sérstöðu getur íslensk ferðaþjónusta skapað sér með sterkri ímynd í umhverfismálum. Landið býr yfir ómetanlegum auðlindum til ferðaþjónustu, auðlindum sem senn verða af skornum skammti í heiminum ef svo heldur fram sem horfir.``

Og ég tek fram, virðulegi forseti, að þetta eru orð úr skýrslu hæstv. ráðherra en ekki frá mér.

Bragð er að þá barnið finnur. Það verða aldrei eftirmæli þessarar ríkisstjórnar að hún hafi unnið í þessum anda. Rétt er að rifja upp þessi orð sérstaklega þegar ráðamenn velta fyrir sér hvort og þá hve mikið eigi að skerða eina af helstu náttúruperlum landsins, Þjórsárverin, sem eru sérstaða á heimsvísu, auðlind sem er af skornum skammti í heiminum eins og segir í framkvæmdaáætlun hæstv. ráðherra.

Aðilar í ferðaþjónustu hafa ítrekað bent á að ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi síður en svo orðið til þess að bæta ímynd landsins í umhverfismálum. Það er djúpt á umhverfisvitund ríkisstjórnarinnar sjálfrar og vandséð að þessari framkvæmdaáætlun hafi verið fylgt eftir.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur framkvæmdaáætlun sem ráðherra setti fram í janúar 1998 um sjálfbæra ferðamennsku og umhverfisvernd verið fylgt eftir? Ef svo er, hver er staðan varðandi eftirfarandi markmið áætlunarinnar:

a. að Ísland nái sérstöðu á sviði umhverfismála,

b. ferðamennska verði nýtt sem afl til verndunar auðlindum,

c. stuðlað verði að fræðslu og aukinni umhverfisvitund,

d. að samþætta ferðaþjónustu og náttúruvernd,

e. framkvæmd laga og reglugerða verði virk og

f. að gott aðgengi fyrir fatlaða verði sem víðast?