Akstur ferðamanna á malarvegum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:00:19 (1405)

2002-11-13 17:00:19# 128. lþ. 29.11 fundur 185. mál: #A akstur ferðamanna á malarvegum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:00]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Undanfarin sumur hafa reglulega heyrst heldur daprar fréttir í fjölmiðlum af hörmulegum slysum úti á malarvegum. Það sem vekur athygli er að í flestum tilvikum er um útlendinga að ræða. Þróunin í ferðaþjónustunni er með þeim hætti að það dregur úr svokölluðum hópferðum og útlenskir ferðamenn skipuleggja æ meir ferðir sínar á eigin vegum og nota þá í vaxandi mæli bílaleigubíla ef þeir koma ekki á sínum eigin bílum.

Vandinn er hins vegar að í mörgum tilvikum kunna þeir ekki að aka á malarvegum. Þeir eru vanir beinum, vel merktum vegum og allt öðrum aðstæðum en hér þekkjast. Því má segja að þeir komi að sumu leyti hingað eins og beljur á svelli. Þessi vandi á eftir að aukast. Almennt er því spáð, og vonandi ganga þær spár eftir, að fjöldi ferðamanna fari vaxandi hingað til lands. Okkur er því nokkur vandi á höndum. Að óbreyttu mun alvarlegum slysum fjölga af þessum sökum með hörmulegum mannskaða, slysum og eignatjóni. Það hlýtur því að vera skylda okkar sem þjóðfélags að bregðast einhvern veginn við.

En með hvaða hætti? Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að það er auðvitað ekki létt verk. Manni dettur auðvitað í hug að auka fræðslu í þessum efnum, með ítarlegri kynningu, bættum merkingum á vegum, leiðbeiningum og þar fram eftir götunum. Ég kann auðvitað ekki lausnina. Hins vegar teldi ég afskaplega skynsamlegt að hæstv. ráðherra setti t.d. af stað vinnuhóp fólks sem þekkir til í þessum greinum til að koma með tillögur og vinna að lausn þessa vandamáls. Mér dettur í hug að þar gætu verið fulltrúar frá Vegagerðinni, Umferðarráði, bílaleigum, tryggingafélögum, ferðaþjónustu og lögreglu svo einhverjir séu nefndir.

Alltént má ljóst vera að við getum ekki horft þegjandi á hin hörmulegu slys sem stafa af vankunnáttu kærkominna ferðalanga. Ábyrgð okkar er því mikil. Við viljum bjóða þá velkomna hingað án þess þó að leiða þá í gildrur, sem má segja að malarvegir séu þessum vankunnandi útlendingum.

Því spyr ég hæstv. samgrh. hvort hann hyggist grípa til eða sjái fyrir sér einhverjar aðgerðir til þess að sporna við hinum tíðu slysum sem verða við akstur ferðamanna á malarvegum.