Akstur ferðamanna á malarvegum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:03:29 (1406)

2002-11-13 17:03:29# 128. lþ. 29.11 fundur 185. mál: #A akstur ferðamanna á malarvegum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvort ráðherra hyggist grípa til sérstakra aðgerða til að sporna við tíðum slysum við akstur ferðamanna á malarvegum.

Fyrirspyrjandi, hv. þm. Hjálmar Árnason, tekur þetta mál hér upp. Það er eðlilegt að vakin sé athygli á því. Allt of mörg hörmuleg slys hafa orðið en því miður verða þau ekki einungis á malarvegum heldur á vel uppbyggðum vegum. Það þekkjum við frá öðrum löndum að þar verða hörmuleg slys í umferðinni og mikilvægt að leita allra leiða til að sporna við þeim.

Ég geri ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi eigi við erlenda ferðamenn. Slysum hjá þeim hópi vegfarenda hefur farið fjölgandi á undanförnum árum enda hefur erlendum ferðamönnum fjölgað undanfarið, ekki síst þeim sem aka um vegi landsins á eigin bílum eða bílaleigubílum. Samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndar umferðarslysa, sem leggur mikla vinnu í að fara ofan í þessi slys, dregur af ályktanir og leggur til úrbætur, hafa níu erlendir ferðamenn látist í umferðarslysum á árunum 1998--2001 og það sem af er árinu 2002. Þessi ár hafa verið óhagstæð að því er varðar dauðaslys almennt, mun óhagstæðari en árin á undan. Þess gætir e.t.v. einnig í þeim hópi sem fjallað er um í fyrirspurninni.

Lögð hefur verið áhersla á að mæta þessari alvarlegu þróun með upplýsingagjöf til þessa hóps í gegnum bílaleigur og við komu bílaferjunnar Norrænu til landsins. Leggja þarf áherslu á að leita allra leiða til að gera enn betur. Það vil ég undirstrika sérstaklega. Einnig þarf að fara yfir merkingar á malarvegum, ekki síst við þá staði á aðalvegum landsins þar sem bundið slitlag endar og malarvegur tekur við. Vegagerðin leggur áherslu á að finna leiðir til þessa.

Áhrifaríkast er þó að fækka malarköflum á aðalleiðum. Þar hefur mikið áunnist á undanförnum árum. Með afgreiðslu samgönguáætlunar verður lagður grundvöllur að framhaldi á því. Í þessu sambandi má einnig nefna fækkun einbreiðra brúa þó að þær séu ekki bundnar við malarvegina eina. Þar hefur náðst verulegur árangur undanfarið ár og stefnt að markvissum aðgerðum á því sviði á næstu árum.

Að því er varðar tvö fyrsttöldu atriðin hef ég þegar falið Vegagerðinni að taka þau til sérstakrar skoðunar og úrbóta eftir því sem unnt er.