Akstur ferðamanna á malarvegum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:06:56 (1407)

2002-11-13 17:06:56# 128. lþ. 29.11 fundur 185. mál: #A akstur ferðamanna á malarvegum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:06]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna jafnframt þeirri ábendingu sem hæstv. ráðherra hefur komið til Vegagerðarinnar. Eftir því sem malarvegum fækkar þá fækkar þessum slysagildrum, ekki síst gagnvart útlendingunum. En það má líka ljóst vera að malarvegir verða alltaf hér til staðar, þó ekki sé annað en hálendisvegir. Það eru ekki síst þeir staðir sem útlendingar sækja í til að njóta íslenskrar náttúru.

Ég hef rætt við nokkra rekstraraðila bílaleigna. Hæstv. ráðherra nefndi hér að samkvæmt rannsóknarnefnd umferðarslysa hafi níu erlendir ferðamenn látist en þar ofan á má síðan bæta gífurlegu eignatjóni þar sem menn og farþegar hafa til allrar hamingju sloppið við meiðsli en eignatjón orðið gífurlegt. Rekstraraðilar hjá bílaleigum telja einmitt að malarvegirnir séu ein mesta gildran gagnvart þessum erlendu ferðamönnum. Þess vegna er sameiginleg ábyrgð okkar mikil. Ég ítreka að lausnin á þessum vanda er ekki einföld og vildi ég því hvetja hæstv. ráðherra til að setja vinnuhóp á laggirnar með fulltrúum úr atvinnugreinum sem að þessu koma, sérfræðingum á þessu sviði til þess segja til um hvort auka þurfi merkingar, fræðslu og þar fram eftir götunum. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess vegna þess að þetta er óneitanlega mikil slysagildra sem við þurfum að reyna að draga úr. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur á móti fyrir svörin.