GSM-dreifikerfið

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:09:21 (1408)

2002-11-13 17:09:21# 128. lþ. 29.12 fundur 189. mál: #A GSM-dreifikerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:09]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef beint nokkrum fyrirspurnum til hæstv. samgrh. er varða GSM-dreifikerfið og notkun GSM-síma.

Ég ætla að fara með hv. þingmenn í bíltúr, norður um og aka eftir þjóðvegi 1. Neðst í Norðurárdalnum taparðu sambandi í GSM-kerfinu. Þú kemst aftur inn á Holtavörðuheiði um hríð. Samband tapast aftur fljótlega í Hrútafirði, þú ert inni og úti í allri Húnavatnssýslunni, kemst inn í kringum Blönduós, ert þokkalegur inn Blöndudalinn. Vatnsskarðið og Bólstaðarhlíðarbrekka eru mjög erfið í þessu samhengi. Skagafjörður er inni, Öxnadalsheiði er algjörlega úti og Öxnadalurinn efst og lengi niður úr sömuleiðis.

Þú ert kominn á Akureyri. Eyjafjörðurinn er í þokkalegu standi. Þú ferð Vaðlaheiðina og austur um til Mývatns, þú ert inni og úti. Austan við Mývatn og allar götur til Egilsstaða ertu meira og minna úti. Á miðfjörðum Austurlands og á Austurlandi ertu inni og úti, þú ert í þokkalegu standi þar sem stutt er milli þéttbýlisstaða. Á suðurhluta Austfjarða ertu meira og minna úti. Frá Höfn og vestur um ertu úti allar götur að Kirkjubæjarklaustri. Frá Kirkjubæjarklaustri í Mýrdalinn ertu inni og úti. Frá Mýrdal að höfuðborgarsvæðinu ertu meira og minna inni.

Ég hef ekki reiknað þetta vísindalega, herra forseti, en mér sýnist hins vegar í fljótu bragði að það sé miklu meira en þriðjungur af hringveginum sem er úti þegar kemur að því að nota GSM-símann. Þetta er auðvitað algerlega ófært ástand. Það sem meira er, herra forseti, mér sýnist að lítið hafi þetta nú lagast á síðustu árum. Þess vegna lagði ég fram spurningar um hversu miklu Landssíminn hefur varið af fjármunum til að bæta GSM-dreifikerfið á síðustu fimm árum. Hver voru helstu verkefni sem í var ráðist og hvaða áætlanir hefur fyrirtækið um að stórbæta skilyrði GSM-farsímanotenda á næstu árum?

Hér er auðvitað ekki eingöngu um að ræða sjálfsagða og eðlilega þjónustu sem við höfuðborgarbúar og við hér á suðvesturhorninu göngum að sem vísri og notum heilmikið og skilar miklum fjármunum í kassa Landssíma Íslands hf. heldur er ekki síður um að ræða mikið öryggistæki, heilmikið öryggistæki.

Ég veit til þess að fólki úti á landi finnst það varnarlaust þegar GSM-síminn þeirra dettur inn og út eftir veðrabrigðum og hvernig dreifikerfinu háttar til. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari mér þessum spurningum sem fyrir framan hann eru og við fáum hér skýrar línur í málið.