GSM-dreifikerfið

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:18:01 (1410)

2002-11-13 17:18:01# 128. lþ. 29.12 fundur 189. mál: #A GSM-dreifikerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:18]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli sem og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það vekur einmitt athygli sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að hér er um að ræða þróun sem hófst 1997, það er nú ekki lengra síðan. Þróunin er því gífurlega hröð. Ég tek eins undir það að hér er um gífurlega mikilvægt öryggistæki að ræða, en GSM-síminn er meira. Hann er í rauninni eitt algengasta samskiptaformið í nútímanum.

Ég vildi aðeins vekja athygli á einu atriði sem ég hef orðið var við á ferðum um landið að GSM-síminn er farinn að stjórna því hvar ferðalangar gista. Ég er þá að tala um staði jafnvel við hringveginn, staði eins og Öræfasveit þar sem um 150--160 þús. ferðamenn koma árlega. Rekstraraðilar sem eru að byggja sig upp þar verða varir við það að ferðalangar sem koma einir á ferð, snúa frá ef ekki er GSM-samband. Hér er því auðvitað út frá byggðasjónarmiði og uppbyggingu ferðaþjónustu mikilvægt að herða frekar róðurinn í að byggja upp gott GSM-dreifikerfi fyrir alla landsmenn.