Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:34:45 (1418)

2002-11-13 17:34:45# 128. lþ. 29.14 fundur 217. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:34]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn minni er sú að ekki alls fyrir löngu á fundi hjá hv. samgn. voru tilkynntar breytingar af hálfu ráðuneytisins á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Þar kom fram í máli fulltrúa samgrn. m.a. að markmiðið með því að breyta þessum lögum væri m.a. að efla samkeppnisþátt Póst- og fjarskiptastofnunar. Því legg ég fram fyrirspurn, og ekki að ástæðulausu, um hvort ekki hafi verið skoðuð annaðhvort samvinna eða ekki síður það hvort rétt væri að sameina þessa stofnun og Samkeppnisstofnun. Við vitum líka að ýmsir aðilar á fjarskiptamarkaði hafa kvartað undan því að þeim hafi ekki verið sinnt sem skyldi af Póst- og fjarskiptastofnun --- hún hefur verið undirmönnuð --- þegar þeir hafa lagt fram kvartanir um hugsanlega misnotkun annarra á samkeppnissviði á fjarskiptamarkaði.

Þess vegna stendur eftir sú spurning hvort rétt sé að byggja upp þessa samkeppnisdeild innan Póst- og fjarskiptastofnunar eða samkeppnisþáttinn þar í stað þess að nýta þekkingu Samkeppnisstofnunar eða hugsanlega samlegðaráhrif þessara tveggja stofnana. Er rétt að hafa tvær stofnanir sem í raun gera það sama? Póst- og fjarskiptastofnun athugar samkeppnisþátt á fjarskiptamarkaði og Samkeppnisstofnun athugar samkeppnisþátt á fjarskiptamarkaði. Er þetta eðlilegt? Er rétt að tvær stofnanir vinni sama verkið á tveimur stöðum? Er ekki verið að tvívinna verkin?

Við vitum að Póst- og fjarskiptastofnun er frekar mannfá. Hún hefur ekki getað sinnt þessum kvörtunum sem skyldi, eins og ég gat um áðan. Því spyr ég hvort ekki væri rétt að reyna að samnýta eða nýta þennan mannskap á samkeppnissviði betur. Ég hefði gjarnan viljað sjá vinnu lagða í það af hálfu samgrn. annars vegar og viðskrn. hins vegar sem ráðuneytis samkeppnismála, að skoða hagkvæmni þess að sameina þessar stofnanir, hver sá sparnaður yrði og hversu mikil hagræðing og kraftur kæmi til með nýtingu mannskaps þessara tveggja stofnana, þ.e. samlegðaráhrifin. Hver yrðu þau? Því spyr ég í ljósi þessara upplýsinga sem okkur bárust í samgn. þingsins, þ.e. að efla eigi samkeppnisþátt Póst- og fjarskiptastofnunar, hvort skoðað hafi verið í þessu samhengi að sameina Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun.