Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:37:43 (1419)

2002-11-13 17:37:43# 128. lþ. 29.14 fundur 217. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Fjarskipta- og upplýsingamál skipta Íslendinga verulega miklu máli. Markmiðið er að Ísland verði í fremstu röð tæknivæddra ríkja með ódýra og góða fjarskiptaþjónustu. Alþingi og stjórnvöld bera ábyrgð á því að tryggja réttlátar leikreglur í fjarskiptamálum, leikreglur sem stuðlað geta að aukinni velferð og hagsæld í þjóðfélaginu. Leikreglur fjarskiptanna eru um margt frábrugðnar leikreglum annarrar atvinnustarfsemi, m.a. vegna þeirrar sérstöðu fjarskipta í Evrópu að þau hafa fyrst fyrir fáum árum verið leyst undan vernd einkaréttar og því hefur ekki verið talið tímabært að fella ákveðna þætti fjarskiptaþjónustu, svo sem samtengingu, kostnaðargreiningu fjarskiptafyrirtækja, reglur um opinn aðgang að netum og alþjónustu, undir samkeppnislöggjöfina. Fleiri dæmi mætti telja, svo sem umsjón með tíðnimálum og úthlutun númera. Þessi verkefni eru bæði mjög sérhæfð tæknilega og þess eðlis að þau falla utan verksviðs Samkeppnisstofnunar.

Póst- og fjarskiptastofnun er eftirlitsaðili sem hefur það hlutverk að móta samkeppnismarkað úr markaði þar sem ríkisreknar símastjórnir hafa um áratuga skeið átt og rekið eina fullkomna fjarskiptanetið sem til var þar til einkaréttur var afnuminn með lögum. Breytt lagaumhverfi og starfsemi faglegs eftirlitsaðila hefur gert nýjum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi á markaðnum.

Hitt er svo annað mál að langtímamarkmið með þessu lagaumhverfi og starfi Póst- og fjarskiptastofnunar er að á fjarskiptamarkaðnum gildi almennar leikreglur og að ekki þurfi sérstakar aðgerðir og stofnanir til eftirlits með markaðnum, þ.e. að fjarskiptamarkaðurinn verði eins og hver annar markaður þar sem fyrirtæki keppa á jafnréttis- og jafnræðisgrundvelli.

Á þessu haustþingi mun ég leggja fram frv. til nýrra fjarskiptalaga og laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Þar verða gerðar veigamiklar breytingar á gildandi lögum sem eiga sér fyrst og fremst stoð í nýju regluverki EES-samningsins og tilskipun frá mars 2002. Meðal helstu nýmæla er breytt aðferðafræði við skilgreiningu á markaði og útnefningu á markaðsráðandi stöðu sem er mjög mikilvægt atriði á fjarskiptamarkaðnum.

Eins og kunnugt er telst fjarskiptafyrirtæki í dag hafa umtalsverða markaðshlutdeild ef hún er 25% eða meira en samkvæmt frv. verður notuð aðferðafræði samkeppnisréttarins við greiningu á markaði og markaðsráðandi stöðu. Þá er áskilið að leggja megi kvaðir á fjarskiptafyrirtæki sem telst hafa markaðsráðandi stöðu. Þær kvaðir eiga að byggja á faglegum atriðum eins og hegðun á fjarskiptamarkaði og verðlagningu. Vel mætti hugsa sér að þetta verkefni yrði falið Samkeppnisstofnun en það var hins vegar niðurstaða framkvæmdastjórnar ESB að eftirlitsstofnanir á fjarskiptasviði ættu að annast það, að sjálfsögðu í samráði og í góðri samvinnu við Samkeppnisstofnun eins og ég hef lagt mjög ríka áherslu á áður í umræðum. Þessi niðurstaða ESB verður vart túlkuð öðruvísi en svo að fjarskiptamarkaðurinn hafi ekki enn náð því jafnvægi að lúta almennum leikreglum samkeppnisréttarins.

Ég vil að lokum geta þess að umræðan um sameiningu fjarskiptastofnana og samkeppnisstofnana fer fram í öðrum Evrópuríkjum en niðurstaða hennar er almennt samhljóða niðurstöðu framkvæmdastjórnar ESB. Spurningin er því tímabær og umræðan er tímabær en samruni stofnananna er ekki að mínu mati tímabær. Ég velti þessari spurningu að sjálfsögðu fyrir mér við endurskoðun laga um Póst- og fjarskiptastofnun.

Af framangreindum ástæðum varð niðurstaða mín sú að ég mun leggja til að áfram starfi sjálfstæður eftirlitsaðili á fjarskiptamarkaði á Íslandi.