Vegagerð og umferð norður Strandir

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:46:36 (1422)

2002-11-13 17:46:36# 128. lþ. 29.15 fundur 219. mál: #A vegagerð og umferð norður Strandir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:46]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. samgrh. um vegagerð og umferð norður Strandir, norður í Árneshrepp. Spurningarnar eru eftirfarandi:

1. Hver er áætlun um framkvæmdir og verklok á vel uppbyggðum vegi með bundnu slitlagi norður Strandir frá Brú að Hólmavík?

2. Hversu mikil umferð er um veginn norður Strandir úr Kaldrananeshreppi í Árneshrepp og hvernig hefur hún þróast sl. tíu ár, sundurliðað eftir mánuðum?

3. Hver er verkáætlun um uppbyggingu vegarins um Kaldrananeshrepp og Árneshrepp og hvenær verður uppbyggingu góðs malarvegar norður í Árneshrepp lokið?

Herra forseti. Vegir og samgöngur eru undirstaða byggða og atvinnulífs og það gildir jafnt um byggðir norður Strandir. Vegurinn til Ísafjarðar liggur norður Strandir og norður um Hólmavík og yfir Steingrímsfjarðarheiði en vegurinn á köflum þar á innströndum er malarvegur annars vegar eða þá bara með einbreiðu slitlagi. Þessi vegur er oft mjög holóttur og ber illa þungaflutninga. Það er því mikilvægt að vegur þarna um verði sem allra fyrst og best búinn til þess að bera umferð.

Í öðru lagi, herra forseti, er það vegurinn áfram frá Hólmavík norður Strandir og norður í Árneshrepp. Sá vegur flokkast ekki undir almenna þjóðvegi og hefur verið unnið í honum í áföngum á undanförum árum en mörgum þótt miða hægt.

Á sl. sumri þyngdist mjög umferð á þeim vegi, m.a. vegna mikilla flutninga bæði fólks sem fór norður í Árneshrepp og einnig vegna fiskflutninga. Vegurinn þar bar engan veginn þá umferð þannig að þegar ég fór þarna um í ágústmánuði, var vegurinn mjög illa farinn, holóttur og hvarfóttur.

Það skiptir miklu máli fyrir atvinnulíf þar norður að vegasamgöngur séu sem bestar og ferðaþjónusta sem er vaxandi atvinnuvegur einmitt norður í Árneshreppi er líka mikilvæg fyrir atvinnu og búsetu þar.

Mér er kunnugt um að verið var að mæla umferðina norður í Árneshrepp á sl. sumri á svokölluðum bölum og væri því mjög fróðlegt í þessari umræðu að fá að vita hversu mikil hún hefur verið. Því hef ég, herra forseti, lagt fram þær spurningar sem ég áður hef greint frá fyrir hæstv. samgrh.